Keflvíkingar unnu í kvöld frábæran sigur á grönnum sínum úr Grindavík. Eftir að Grindvíkingar höfðu haft frumkvæðið framan af leik voru það heimamenn sem reyndust sterkari og uppskáru sanngjarnan 5 stiga. Lokatölur 93-88.

 

 

Þáttaskil

Grindvíkingar litu mun betur út í sínum leik í fyrri hálfleik en þrátt fyrir það tókst Keflvíkingum alltaf að hanga í þeim og að lokum síga frammúr á lokasekúndum hálfleiksins . Værukærð og kæruleysi varð til þess að Grindvíkingar héldu hurðinni opinni fyrir heimamenn sem eins og hungraðir flökkuhundar tóku allt það þeim var rétt og nýttu sér öll þau mistök sem Grindvíkingar gerðu. Keflvíkingar komust yfir í fyrsta skipti rétt fyrir hálfleik og létu svo kné fylgja kviði í þeim síðari. Stigin komu úr öllum áttum og náðu heimamenn upp 14 stiga mun þegar mest lét. Forystuna létu þeir ekki af hendi aftur og Grindvíkingar virtust týndir og slegnir útaf laginu. Þegar þeir svo rönkuðu við sér var tíminn orðinn þeirra versti óvinur og Keflvíkingar héldu út þrátt fyrir að gestirnir hafi andað ofan í hálsmálið á þeim í lokin.

 

Tölfræðin lýgur ekki

Keflvíkingar fengu 40 stig frá varamönnum sínum í kvöld á móti aðeins 10 stigum frá Grindavíkurbekknum. Stemmningin var öll Keflavíkurmegin enda er yfirleitt glatt á hjalla þegar allir sem stíga inná völlinn leggja í púkkið og smitar slík orka útfrá sér. 

 

Maður leiksins

Cameron Forte var skæðastur Keflvíkinga í kvöld. Þessi óheflaði leikmaður, sem virðist algjörlega fyrirmunað að fara á hægri höndina sína, er með afleitan vítaskotstíl og virkar óöruggur í knattraki sínu tókst samt sem áður að fara illa með Sigurð Gunnar og Ómar Örn ásamt fleiri Grindvíkingum. Hér er þó á ferðinni áræðinn körfuboltamaður með mikið sjálfstraust sem enginn skyldi vanmeta þrátt fyrir stirða tilburði af og til. Baráttugleði og óeigingirni fleyta honum fram fyrir þá galla sem í hans leik eru en Forte endaði leikinn með 20 stig, 15 fráköst og 7 stoðsendingar. Ragnar Bragason átti flotta innkomu af bekknum og skaut Grindvíkinga í kaf í 4. leikhluta og endaði með 14 stig. Reggie Dupree, Hilmar Pétursson og Þröstur Leó Jóhannsson skiluðu einnig mjög jákvæðu framlagi af bekknum en allir sem komu við sögu hjá Keflavík eiga hrós skilið fyrir sinn leik í kvöld.

 

Rashad Whack var atkvæðamestur hjá Grindavík með 31 stig og þá skoraði Sigurður Gunnar Þorsteinsson 16 stig og tók 10 fráköst.

 

Kjarninn

Fyrirfram hefði maður veðjað á Grindavíkursigur m.v. gengi liðanna hingað til. Grindvíkingar virkuðu mun skipulagðari og agaðri í sínum aðgerðum í byrjun leiks og furðaði maður sig á því að liðin væru í raun jöfn þegar vel var liðið á 2. leikhlutann því Keflvíkingar litu alls ekki út fyrir að hafa "game-plan" og voru tilviljunarkenndir sóknarlega. Eftir að Keflavík náði yfirhöndinni fann Grindavík ekki liðið sitt, þ.e. þá 5 menn sem stóla átti á. Örar skiptingar hjá Jóhanni og Þorleifi á bekk gestanna gerðu ekkert nema rugla leik liðsins meira og var það ekki fyrr en í blálokin að Rashad Whack datt í gang og kom Grindavík í smá sjéns á að snúa taflinu við. Því miður fyrir þá var enginn hiti á öðrum mönnum og því fór sem fór.

Keflvíkingar eiga hins vegar hrós skilið fyrir sína framgöngu og sýndu í kvöld að þegar liðið smellur saman eru þeir óárennilegir og líklegir til afreka gegn hverjum sem er. Jón Arnór Sverrisson var í búning fyrir Keflavík í fyrsta skipti eftir vistaskipti sín frá Njarðvík en hann kom ekki við sögu í kvöld. Erfitt er að sjá hvar hann á að skila mínútum í liði sem fyrir er fullt af ungum,  frambærilegum bakvörðum sem hungrar í spilatíma. Liðið er með óljósa verkaskiptingu og næsta víst að Friðrik Ingi og Hjörtur eru enn að velta fyrir sér hverjir eru 5 bestu menn liðsins. Þegar öllu er á botninn hvolft skiptir það ekki máli þegar allir skila sínu eins og við fengum að sjá í kvöld.  

 

Tölfræði leiks

 

Umfjöllun / Sigurður Friðrik Gunnarsson