Það voru liðin úr úrslitarimmunni frá í vor sem mættust strax í fyrstu umferð í Dominosdeildar kvenna þegar íslandsmeistarar Keflavíkur mættu gegn Snæfelli í Stykkishólmi.

 

Liðin voru ámóta í fyrsta hluta 23-20. Þá voru Snæfellsstúlkurnar ekki búnar að gleyma vorinu og börðust vel og voru skipulagðar í sóknum sínum en mikið munaði um þekkta stærð í Kristen McCarthy. Sívinnandi lið Keflavíkur komust fljótt yfir 25-29 í öðrum hluta og bæði lið þurftu að hafa fyrir stigum sínum. Brittanny Dinkins hjá Keflavík var dugleg að sprengja upp leikinn undir lok fyrri hálfleiks með góðri hjálp Thelmu og Emelíu. Þar uppskáru Keflavíkurstúlkur að vera yfir í hálfleik 36-41 og Brittany komin með 18 stig en Kristen var komin með 14 stig hjá Snæfelli. Leikurinn heilt yfir var ekki sá fallegasti en hann var kröftugur, pínu mistækur á báða bóga og liðin eiga bæði inni.

 

Þáttaskil.

 

Þegar leikurinn var 3ja stiga leikur 42-45 áttu Keflavík gott áhlaup og komu þessu í 42-58 eftir þriðja hluta. Snæfell misstu eilítið sjónar af varnarleik sínum og frákastabaráttu og Keflavík refsaði hratt. Snæfell skorar ekki nema sex stig í þriðja leikhluta og missir töluverðan mátt í leiknum en fram að því voru duglegar. Keflavík hljóp leikinn vel og þreyta sagði til sín hjá Snæfelli.

 

Snæfell náðu að gíra sig upp um miðjan fjórða hluta og náðu að minnka munin í 10 stig 55-65 með þrælfínum varnarleik. Miðað við að hafa verið yfirkeyrðar í þriðja hluta af gestunum þá var fínn kraftur í Snæfelli undir lokin en dugði ekki til og lokatölur 63-77. 

 

Hetjan var klárlega Brittanny Dinkins með 26 stig, 7 fráköst og 11 stoðsendingar. Hún keyrði upp leikinn á réttum augnablikum og spilaði vel upp á Birnu Valgerði, Thelmu Dís og Emelíu Ósk sem stóðu sig allar með ágætum. 

 

Tölurnar tala sínu máli og voru þessi sex stig sem Snæfell skoraði í þriðja leikhluta sem gerði útaf við þær og Keflavík gengu á lagið. Nýtingin þá dró þær heldur betur niður sem var 32% gegn 42% Keflavíkur. Þrátt fyrir að frákastabaráttan væri Snæfells, í allt 47 gegn 41 og 17/10 í sókn þá nýttist það ekki í kvöld. Á eftir Brittanny voru Birna Valgerður með 14 stig ogThelma Dís með 12 stig og 8 fráköst. Kristen McCarthy endaði með 23 stig og 12 fráköst og Berglind Gunnarsdóttir með 14 stig og 9 fráköst.

 

Tölfræði leiksins

 

Umfjöllun / Símon B Hjaltalín.