Liðin sem mættust í undanúrslitaeinvígi Dominos deildar kvenna á síðasta tímabili léku aftur gegn hvort öðru í fimmtu umferð deildarinnar í kvöld. Keflavík vann nokkuð öruggan sigur en nánari umfjöllun um leikinn má finna hér að neðan:

 

Gangur leiksins: 

 

Heimakonur í Keflavík mættu mun einbeittari og sterkari til leiks gegn Skallagrím í kvöld. Vörn Keflavíkur var eiturhörð frá upphafi en Skallagrímur virtist vera á hælunum og engan vegin klát í bardaga frá fyrstu sekúndu. 

 

Keflavík virtist ákveðið í að koma til baka og sýna á sér rétt andlit eftir brösugt gengi síðustu vikur. Carmen Tyson-Thomas dróg vagninn fyrir Skallagrím og var með 22 stig af fyrstu 30 hjá liðinu. Það vat hinsvegar ekki nóg gegn Keflavíkur liðinu í fyrri hálfleik. Liðið spilaði einfaldlega betur saman sem lið og leiddi í hálfleik 56-38. 

 

Keflavík náði mest 26 stiga forystu í leiknum í stöðunni 102-76. Skallagrímur gerði sig aldrei líklegt til þess að gera þetta að spennuleik en liðið náði að minnka muninn aðeins í lokin. Lokastaðan 107-92 fyrir Keflavík. 

 

Hetjan: 

 

Brittany Dinkins var mjög góð hjá Keflavík, hún endaði með 35 stig, 6 fráköst, 13 stoðsendingar og 3 stolna bolta. Auk þess var hún með 73% skotnýingu í leiknum. Thelma Dís var einnig með 18 stig og 9 fráköst auk þess sem Erna Hákonadóttir var með fimm þriggja stiga körfur og 18 stig í heildina. Hjá Skallagrím var Carmen Tyson-Thomas atkvæðamest að vanda með 49 stig, 18 fráköst og fjóra stolna bolta auk þess em hún hitti 80% úr 20 skotum sínum fyrir innan þriggja stiga línuna. 

 

Kjarninn: 

 

Þetta var Keflavíkur liðið sem við könnumst við. Liðið spilaði harða vörn og gaf andstæðingnum varla millimetra framan af. Liðið var að finna góðu skotin og allir leikmenn að leggja eitthvað í púkk. Það þarf ekki að örvænta mikið í Keflavík þrátt fyrir brösuga byrjun, liðið mun ná takt og þá líklegt að það verði óviðráðanlegt. 

 

Það verður seint sagt um lið Skallagríms að það spili áferðafallegan körfubolta. Carmen Tyson-Thomas skilaði frábærum tölum í kvöld en það var ekkert boltaflæði í kringum hana. Skotval liðsins var tilviljanakennt og ákafinn sem liðið sýndi varnarlega á stórum köflum á síðasta tímabili er ekki til staðar. Það er morgunljóst að hæfileikarnir eru til staðar í Skallagrím og líklegt að liðið þurfi bara að finna taktinn. 

 

Tölfræði leiksins