Það var stórleikur í 32-liða úrslitum Maltbikarsins í Garðabænum í kvöld. Nágrannarnir úr Hafnarfirði voru gestirnir og mættu líkast til fullir sjálfstraust með endurkomu Kára Jónssonar. En heimamenn höfðu líka ástæðu til bjartsýni enda enginn annar en Íslandsvinurinn Stefan Bonneau mættur í Stjörnubúning! Fyrir hinn almenna körfuboltaáhugamann eru þetta alveg æðislegar fréttir og eiga þeir félagar vafalaust eftir að gleðja okkur með flottum tilþrifum í vetur.

 

Þáttaskil

Gestirnir byrjuðu ívið betur í leiknum, ekki síst Paul Jones sem verður væntanlega eitthvað áfram í Hafnarfirðinum. Stjörnumenn voru skrefinu á eftir og var það landsliðsfyrirliðinn sem dró vagninn fyrir sína menn. Þeir félagar Kári og Stefan komu báðir inn á í fyrsta fjórðung og virkuðu eðlilega svolítið spenntir, Kári setti þó niður 4 stig. Staðan 16-22 eftir fyrsta fjórðung.

 

Svipaður gangur var í leiknum fram að seinni hluta annars fjórðungs. Þá misstu heimamenn einbeitingu í augnablik, töpuðu boltanum klaufalega nokkrum sinnum og Haukarnir nýttu sér það. Paul Jones var alveg frábær allan fyrri hálfleikinn og Kári Jóns var fljótur að hrista úr sér spennuna og fór að setja þrista! 34-45 var staðan í hálfleik, Paul Jones var með heil 19 stig í hálfleik og Kári 9.

 

Munið þið eftir Haukaliðinu sem átti það til að raða þristum, kæfa sókn andstæðinganna og setja 10+ stig á ótrúlega skömmum tíma? Það var einmitt það sem gerðist í þriðja leikhluta. Tvær mínútur liðnar af seinni hálfleik og Stjörnumenn allt í einu komnir ofan í holuna frægu sem var 20 stiga djúp, 36-56. Hlynur var sá eini sem náði eitthvað að bíta til baka en það dugði skammt – í blálok leikhlutans setti Kári Jóns þrist frá miðju og kom sínum mönnum í 51-73! Kannast einhver við það?

 

 

Það bjóst enginn við endurkomu hjá Stjörnunni enda tókst henni ekki að brúa bilið. EN þeir reyndu svo sannarlega! Það vantar ekki karakter í liðið, það getur Hrafn a.m.k. tekið úr leiknum. Það var einkum Eysteinn Bjarni og Hlynur sem fóru fremstir í flokki en allir lögðu sig 100% fram. Nefna mætti einnig Tómas Þórð sem óttast ekkert þó hlutirnir gangi ekki alltaf upp hjá honum. Eysteinn minnkaði muninn í 80-86 þegar 44 sekúndur voru eftir en allt kom fyrir ekki og Haukamenn enduðu með góðan 83-90 sigur og farmiða í 16-liða úrslitin.

 

Tölfræðin lýgur ekki

 

Fimm leikmenn Hauka skoruðu yfir 10 stig en aðeins þrír hjá Stjörnunni. Haukar unnu frákastabaráttuna 52-35 og þar má segja að breiddin hafi líka skilað sínu, fjölmargir Haukamenn fráköstuðu vel í leiknum.

 

Bestu leikmenn

 

Haukar spilaði mjög vel sem lið í kvöld. Paul Jones var þeirra stigahæstur með 27 stig og tók 9 fráköst og hann hlýtur að vera enn með vinnu. Emil Barja var svo álagalaus og spilaði eins og hann getur, setti 26 stig, tók 6 fráköst og gaf 9 stoðsendingar. Kári kom svo þar á eftir með 16 stig og 5 stoðsendingar.

 

Eysteinn Bjarni var afar góður í kvöld og hefur sennilega ekki átt betri leik í Stjörnubúningi. Hann skoraði 29 stig, tók 3 fráköst og gaf 2 stoðsendingar. Hlynur skilaði sínu eins og oftast, setti 20 stig og tók 19 fráköst! 

 

Kjarninn

 

Leikgleði og sjálfstraust er ekki til sölu í Costco – Kári Jóns hlýtur að hafa flutt það með sér í Hafnarfjörðinn í 40 feta gámi. Nú eða bara í hjarta sér. Það var ótrúlegt að sjá ,,gamla“ Haukaliðið aftur – menn skælbrosandi og allir einhvern veginn líflegri í framan eins og konungurinn í Róhan-ríki eftir að álögunum var létt af honum. Haukaliðið er orðið spennandi!

 

Stjörnumenn þurfa aldeilis ekki að skammast sín fyrir frammistöðuna. Þeir sýndu mikinn karakter og voru ótrúlega nálægt því að gera þetta að spennandi leik. Pryor var ekki með frekar en gegn KR og Stefan Bonneau verður ekki dæmdur af þessum leik enda andlega ekki lentur ennþá. Stjörnuliðið er líka spennandi!

 

 

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Bára Dröfn)

 

Viðtöl:

 

Ívar Ásgrímsson eftir leik

Kári Jónsson eftir leik

 

 

Umfjöllun / Kári Viðarsson 

Myndir / Bára Dröfn