Rétt í þessu boðuðu Haukar fjölmiðla á sinn fund seinna í dag. Eins og Karfan greindi fyrst frá fyrir nokkrum dögum er bakvörðurinn Kári Jónsson kominn heim úr háskóla, samningslaus, og nú ljóst að hann mun leika með uppeldisfélagi sínu í Hafnarfirði á þessu tímabili.

 

Kári lék síðast með Haukum tímabilið 2015-16. Þá skilaði hann 17 stigum, 5 fráköstum og 5 stoðsendingum að meðaltali í 30 leikjum. Það tímabil fóru Haukar alla leið í lokaúrslit Íslandsmótsins, þar sem þeir töpuðu 3-1 í einvígi gegn KR. Eftir það tímabil, fyrir það síðasta, fór hann út í bandaríska háskólaboltann og lék þar með Drexel á síðasta tímabili.

 

Fréttatilkynning Hauka:

 

Kæri fjölmiðill

Körfuknattleiksdeild Hauka boða til blaðamannafundar í íþróttamiðstöð Hauka, Ásvöllum, kl. 12.00 í dag föstudag. Efni fundarins er undirskrift Kára Jónssonar en hann hefur ákveðið að taka slaginn með uppeldisfélaginu í vetur. Jónas Jónmundsson, formaður kkd. Hauka, Bragi Magnússon frá meistaraflokksráði kk., fyrirliði mfl. karla, nýr erlendur leikmaður og Ívar Ásgrímsson, þjálfari liðsins, verða á staðnum og veita þær upplýsingar sem þurfa þykir.

Fyrir hönd kkd. Hauka. Jónas Jónmundsson, formaður kkd. Hauka