Hlutirnir gerast hratt í heimi körfuboltans þessa dagana en stutt er í að félagaskiptaglugginn loki. Kári Jónsson sem leikið hefur með Drexel háskólanum í Bandaríkjunum síðasta árið hefur ákveðið að flytja aftur til Ísland og hefur hug á að leika þar á komandi tímabili. Þetta staðfesti Kári sjálfur við Karfan.is í morgun. 

 

Hann segist hafa ákveðið þetta um helgina og væri nú að ljúka málum sínum þar. Hann ætlaði að taka sér tíma áður en hann færi á fullt hér heima. Kári sem er uppalinn hjá Haukum segist ekki vera farin að ræða við nein félög en viðurkenndi þó að Haukar væru ofarlega á lista.

 

Síðast þegar Kári lék í Dominos deildinni var hann með 16,8 stig, 5,1 stoðsendingu og 5 fráköst að meðaltali í þrjátíu leikjum. Hann var lykilmaður Hauka sem komst í úrslitaeinvígið árið 2016. Hann var einnig í lykilhlutverki hja U20 landsliðinu í A-deild evrópumótsins.