Kári Jónsson var á dag kynntur sem leikmaður Hauka í Dominos deild karla. Kári snýr þar aftur á heimahagana en hann er uppalinn þar og lék í Hafnarfirði áður en hann ákvað að semja við Drexel háskólann fyrir rúmu ári og hefur leikið þar síðan. 

 

Hann ákvað um helgina að snúa aftur til Ísland og leika þar. Mörg lið voru á eftir honum en valdi hann að lokum Hauka sem hann segir hafa verið efsta á sínum lista. Kári samdi til loka þessa tímabils við Hafnarfjarðarfélagið. 

 

Karfan.is ræddi við Kára rétt eftir að hann hafði skrifað undir samninginn við Hauka í hádeginu í dag. 

 

„Ég kem heim á mánudagsmorgun og ákvað þá að fara ekki strax í að skoða mín mál. Á miðvikudaginn fór ég síðan í þetta á fullt. Ræddi og hlustaði á nokkra en auðvitað voru Haukar efstir á listanum.“ sagði Kári og bætti við:

 

„Frá því í fyrra byrjaði mér að líða svona. Var að vonast til þess að þetta myndi breytast eftir eitt sumar hérna heima, ég ýtti þessu kannski til hliðar. Svo kom þetta aftur í bakið á mér eftir að ég fór út. Mér leið bara ekki nægilega vel þarna og hafði ekkert gaman af hlutunum. Þá fannst mér þessi breyting nauðsynleg. Hausinn þarf að vera í lagi ef maður ætlar að taka skrefin fram á við.“ 

 

„Haukar voru efstir á lista. Margt var spennandi og við skoðuðum aðra hluti vel. Mér fannst eitthvað spennandi við að koma aftur hingað og er mjög glaður að það hafi tekist.“ sagði Kári um val sitt að snúa aftur heim í Hauka. 

 

„Ég ætla að spila með liðinu og gera það sem þarf til að liðið sé betra. Ég ætla að hafa gaman og þá kemur margt gott með því. Mér finnst ég betri körfuboltamaður núna en ég var þegar ég fór út fyrir rúmu ári síðan. En hvort ég hefði tekið mörg skref framá við þarna í viðbót er ég ekki viss um, sérstaklega ekki með andlegu hliðina ekki í lagi.“ 

 

„Maður getur ekki beðið eftir að spila aftur í rauðu og komast aftur á parketið.“ sagði svo Kári að lokum en viðtalið við Kára má finna í heild sinni hér að neðan: