Leikstjórnandinn efnilegi Jón Arnór Sverrisson hefur komist að samkomulagi við Keflavík um að leika með liðinu á þessu tímabili. Jón er uppalinn í Njarðvík og hafði leikið þar með meistaraflokki félagsins síðustu tímabil, en hafði ekki fengið mörg tækifæri með liðinu síðustu misseri og fór því fram á það að vera leystur undan samningi fyrr í mánuðinum.

 

Því fór stjórn körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur eftir, en minnti hann á í fréttatilkynningu að endurkoma til Njarðvíkur væri alltaf opin fyrir hann í framtíðinni kjósi hann að koma aftur.

 

Samkvæmt heimildum mun Keflavík vera að reyna að gera það sem þeir geta til þess að ganga frá leikheimild fyrir næsta leik liðsins fyrir leikmanninn, en þeir taka á móti Grindavík annað kvöld í TM Höllinni í Keflavík í þriðju umferð Dominos deildar karla.