Jón Arnór Stefánsson leikmaður KR og íslenska landsliðsins þurfti að fara af velli í leik KR gegn Þór Þ í lokafjórðung leiksins vegna meiðsla. Meiðslin litu illa út en Jón virtist stíga vitlaust í fótinn og fór strax til búningsklefa.

 

"Það verður að koma í ljós. Hann hefur verið stífur í náranum en allt í lagi. Í leiknum steig hann vitlaust niður og það kom einhver verkur upp.“ sagði Finnur Freyr Stefánsson um meiðslin í viðtali við Karfan.is eftir leik í gær. 

 

Samkvæmt heimildum Karfan.is eru meiðslin þau sömu og hafa verið að trufla Jón í sumar í náranum. Svæðið sé það sama og áður og meiðslin því komið upp aftur. Því lítur allt út fyrir að Jón Arnór missi af byrjun mótsins en óvíst er nákvæmlega í hversu langan tíma hann verður frá. 

 

Íslands- og bikarmeistarar KR fá Njarðvík í heimsókn í fyrstu umferð Dominos deildar karla næstkomandi fimmtudag kl 19:15. KRingar geta unnið fimmta Íslandsmeistaratitilinn í röð á þessu tímabili og skrifað sig þar með í sögubækurnar.