Ívar Ásgrímsson í viðtali eftir sigurinn gegn Þór Ak í fyrstu umferð Dominos deildar karla. 

 

 

Ívar, ég trúi ekki öðru en það hafi bara farið að fara um þig í þessum leik?

Við áttum í raun aldrei skilið að vinna þennan leik. Við vorum íþróttinni til skammar hérna í fyrri hálfleik. Lykilmenn okkar voru félaginu hreinlega til skammar. Við vorum hræðilegir, algert andleysi og skipti engu máli hverjir komu inn á í fyrri hálfleik. Okkur vantaði alla orku, metnað og baráttu. Það kom sem betur fer í fjórða leikhluta og það voru eiginlega bara strákarnir sem komu af bekknum sem voru að skila því. 

 

Þið skelltuð ykkur í svæði í fjórða leikhluta og það var eins og að Þórsarar hefðu aldrei spilað gegn slíkri vörn. Þetta svínvirkaði og tók allan takt úr þeim.

Já og við fengum bara baráttu í lokin og þá urðu þeir smeykir. Það má kannski segja að þeir hafi verið hræddir við að vinna leikinn. Við lentum helst í vandræðum í svæðinu þegar Kaninn þeirra fékk boltann í miðjunni en við lokuðum því betur síðustu mínúturnar. En samt sem áður þá vorum við heildina á litið alveg skelfilegir í kvöld.

 

Kaninn ykkar er væntanlega á leiðinni heim?

Já hann er bara alveg skelfilegur og það er bara búið að panta flugfar, við getum orðað það þannig.

 

Það er kannski ágætt að vera búinn að landa tveimur stigum og spila svona – en þið þurfið væntanlega að gera mikið mikið betur ef þið ætlið að vinna einhver önnur lið í þessari deild?

Jájá það er alveg ljóst og við vorum alveg hræðilegir og einfaldlega stálheppnir að fara með sigur úr þessum leik.

 

Viðtal / Kári Viðarsson