Haukamenn fengu Þórsara í heimsókn að norðan í kvöld í fyrstu umferð Dominos-deildarinnar. Það segir sig sjálft að Haukar ætla sér stærri hluti í vetur en í fyrra og samkvæmt sérfræðingum ætti liðið að innbyrða frekar þægileg stig gegn Þórsurum.

 

Það er mál manna að Þórsarar verði auðveld bráð annarra liða í vetur og þeim hefur verið líkt við Snæfellsliðið í fyrra. Nýr þjálfari liðsins, Hjalti Vilhjálms, reiðir hins vegar trúna í þverpokum og spennandi að sjá hverju það mun skila að lokum.

 

Þáttaskil

 

Það voru ekki beint eldglæringar aftan úr heimamönnum framan af og reyndar alveg fram að fjórða leikhluta. Engu líkara var en að Haukamenn væru staddar í Tyrklandi og áhugi á verkefni kvöldsins lítill sem enginn. Norðanmenn nýttu sér þetta ágætlega, einkum Pálmi og Oliver sóknarlega. Staðan var 11-21 eftir fyrsta og Pálmi og Oliver með 19 stig saman.

 

Í hálfleik voru gestirnir enn 10 stigum yfir, 25-35. Oliver var svaðalegur og var kominn með 13 stig og 14 fráköst! Þegar 3 mínútur voru liðnar af þriðja höfðu Þórsarar náð 15 stiga forystu og vafalaust farið að fara um Hauka – bráðum yrði of seint að finna neistann. Hilmar Smári kom þá inn af bekknum fyrir heimamenn, setti nokkur góð stig og merkja mátti lífsmark hjá Haukum. Fyrir fjórða leikhluta voru gestirnir þó enn með 9 stiga forskot, 48-57, sem er enginn prinsessupúði en betra en ekkert.

 

Ívar Ágríms er enginn kjáni og hann fann neistann í formi svæðisvarnar á milli 3 og 4 leikhluta. Heimamenn stálu boltum og gestirnir urðu eins og ísklumpar inn á vellinum. Í kjölfarið skellti Hjálmar sér í loftið og tróð bókstaflega yfir alla Akureyri ef ekki Norðurlandið eins og það leggur sig! Hjálmar setti þrist í næstu sókn og jafnaði í 59-59 og Finnur Atli bætti öðrum við í næstu sókn. Þarna voru rúmar fimm mínútur eftir og Hjalti virtist ekki ná að dæla nægilegri trú í liðið. Oliver var sá eini sem náði aðeins að plástra blæðinguna en það dugði ekki og heimamenn lönduðu 74-66 sigri.

 

Tölfræðin lýgur ekki

 

Það sem stendur upp úr tölfræðilega er sennilega sú staðreynd að tveir leikmenn Þórsara skoruðu um 70% stiga liðsins. Það er ekki líklegt til árangurs.

 

Bestu leikmenn

 

Marques Oliver skilaði 33 stigum og 20 fráköstum í leiknum sem er auðvitað alveg geggjað! Haukamegin eiga kannski ekki margir skilið mikið hrós þrátt fyrir sigur, en tölfræði Barja var þó ekkert dónaleg, 13 stig, 8 fráköst og 6 stoðsendingar. Gott 12 stiga framlag Henningssonar Hilmars var mikilvægt og sprettur Hjálmars reyndist gestunum erfitt andlega.

 

Kjarninn

 

Þetta er fyrsti leikur og óþarfi að missa sig í spádómum. Augljóst er að Haukar geta mikið betur og Þórsarar þurfa framlag frá fleirum. Það byrjar allt og endar með trúnni og leikmenn Þórs hefðu gott af þvi að fá smá meiri trú í æð frá þjálfara sínum.

 

Athygliverðir punktar

  • Ekki var að sjá að mætingin á leikinn hafi verið eitthvað minni en búast mátti við. Hrós á áhorfendur fyrir að taka móðurina fram yfir tuðruspark!
  • Haukamenn voru líka með kveikt á grillinu og Kiddi J. framleiddi dýrindis borgara ofan í fjölmiðlamenn og aðra gesti.

 

Tölfræði leiksins

 

Umfjöllun / Kári Viðarsson