Haukar sigruðu Þór í þriðju umferð Dominos deildar karla fyrr í kvöld. Karfan spjallaði við þjálfara Hauka, Ívar Ásgrímsson, eftir leik í DB Schenker Höllinni í Hafnarfirði.
Haukamenn hljót að vera hamingjusamir núna – ég orðaði það svo að það væri hreinlega eins og álögum væri létt af ykkur?
Jjájá, menn eru farnir að hafa meira gaman af þessu. Við skiptum líka um útlending (auk þess að fá Kára Jónsson aftur) þannig að við erum að fá tvö stór ígildi inn í liðið. Þessi nýi útlendingur hjá okkur er glaður og gefur mikið af sér, er duglegur á æfingum og allt það. Svo kemur Kári inn líka með allt það sem hann gefur okkur þannig að það losnar um margt. Við vorum að spila vel núna og liðið var frábært í alla staði, allir að skila einhverju. Við þurfum bara að halda svona áfram.
Það var athyglivert að sjá Þórsara reyna að brjóta upp leikinn með svæðisvörn – en það skilaði alls ekki neinu og þið hafið kannski æft gegn svæði eins og þú talaðir um eftir Stjörnuleikinn?
Við þurftum kannski ekki að æfa það sérstaklega, þetta eru allt strákar sem kunna að spila gegn svæði – vandamálið var kannski það gegn Stjörnunni að við gerðum þannig séð ekki ráð fyrir því að þeir myndu setja upp svæði. Við fórum þó yfir vissa hluti á móti svæði, bara hvað við ætluðum að gera og fórum yfir smá hreyfingar. Við tókum kannski 15-20 mínútur í það á síðustu æfingu. Við fórum yfir staðsetningar og hvar við vildum setja boltann og við sáum það í kvöld að Finnur var mjög hreyfanlegur inn í miðjunni og fékk galopin skot og við bjuggum líka til galopin sniðskot. Við eigum að slátra öllum svæðisvörnum, við erum með góða skotmenn og góða stóra menn.
Er liðið með einhver markmið sem það vill gefa út?
Við vorum búnir að setja okkur gróf markmið fyrir tímabilið en það er vissulega margt búið að breytast síðan þá. Við höfum ekkert sest niður aftur og sett okkur einhverjar markmiðssetningar. Við þurfum auðvitað að sjá svolítið hvernig þetta þróast hjá okkur og við setjumst ekkert niður aftur held ég fyrr en eftir svona 2-3 leiki til að skoða það.
Einmitt, óþarfi að tapa sér í gleðinni alveg strax?
Já, það er langt í frá að við séum að gera það og að við séum að fara að sitjast niður núna og ætla okkur að verða Íslandsmeistarar – það er langt í frá. Við stefnum bara á það að verða betri og betri og það er markmiðið í augnablikinu. Við eigum mjög erfiða leiki framundan gegn Keflavík, Tindastóli og KR og við skulum sjá hvernig okkur gengur á móti þessum liðum.