Þá er móðir allra íþrótta loksins að rúlla af stað aftur. Meistarar KR-inga hófu leik á heimavelli gegn Njarðvík í kvöld. Vesturbæjarstórveldið hefur lagt það í vana sinn að vinna nokkurn veginn alltaf og liðið líklegt til að viðhalda þeirri hefð enda með sama lið og í fyrra að mestu. Jón Arnór er meira að segja meiddur eins og í fyrra og verður bara Laufey KR-inga ef þarf.

 

Njarðvíkingar hafa fengið Ragnar og Maciej heim úr víking og Nat-vélin alkunna bætir einhverjum sentimetrum við liðið. Ljónin hljóta að vera hungruð í njarðvískan árangur þetta tímabil eftir magurt ár síðast. Sigur gegn meisturum KR-inga yrði ansi gott start í átt að því markmiði.

 

Þáttaskil

 

Meistararnir voru augljóslega tilbúnir í fjörið í upphafi leiks og byrjuðu 10-0. Bjössi K. reyndist sínum fyrri félögum erfiður og KR-liðið í heild hljómaði eins og margra milljóna fiðla frá 18. öld. Eftir fyrsta fjórðung stóðu leikar 29-17 og munurinn síst of mikill.

 

Það stefndi í frekar þægilegan leik fyrir heimamenn þar sem munurinn fór fljótt hátt í 20 stigin. KR-ingar reyndu ítrekað að trufla uppspil gestanna og keyrðu grimmt í bakið á Vélinni og öðrum grænum við hvert tækifæri. Það skilaði sér í góðu flæði, opnum skotum og auðveldum stigum. UMFN lætur sér hins vegar ekki nægja að vera bara með og spýtti í lófana, ekki síst Terrel Vinson sem fór hægt af stað. Í hálfleik var munurinn ekki nema 10 stig og leik ekki lokið í hálfleik eins og á til að gerast í DHL.

 

 

Njarðvíkingar mættu einbeittir til seinni hálfleiks og byrjuðu 6-0. Skyndilega voru þeir búnir að jafna leikinn í 63-63 með Terrel og Loga að sjálfsögðu í broddi fylkingar. Þetta virtist fara illa með sóknarleik liðanna en hvetja varnarleikinn. Í blálok þriðja leikhluta komu Njarðvíkingar sér 67-68 yfir og það í fyrsta sinn í leiknum.

 

Allt var í járnum framan af í lokaleikhlutanum. Terrel var áberandi sóknarlega hjá Njarðvík og var hársbreidd frá því að koma grænum í 77-74 um miðjan leikhlutann. Brotið var á honum í sniðskotinu en á ævintýralega óskiljanlegan hátt fór það algerlega framhjá öllum dómurum leiksins. Terrel gat ekki stillt sig um að kvarta og fékk tæknivillu. Meistararnir nýta sér svona hluti og tóku frumkvæðið í framhaldinu. Í stöðunni 82-77 voru þrjár mínútur eftir og tilfinningin var sú að það myndi duga. Á næstu tveimur mínútum tóku KR-ingar svo 5 sóknarfráköst algerlega án aðkomu dómarastéttarinnar – mínúta eftir og staðan nánast óbreytt eða 84-77. Lokatölur 87-79 sigur heimamanna í hreint ágætum leik.

 

Tölfræðin lýgur ekki

 

Það var mjög áberandi að KR-ingar tóku hrúgu af sóknarfráköstum á besta tíma eða undir lok leiks. Annars var tölfræði liðanna bara býsna áþekk enda jafn leikur.

 

 

Bestu leikmenn

 

Björn, Pavel og Jenkins voru atkvæðamestir heimamanna, Jenkins með 27 stig en Pavel og Björn með öfluga blöndu af stigum, fráköstum og stoðsendingum. Átta Njarðvíkingar komust á blað í leiknum en aðeins tveir fóru yfir 10 stig. Terrel var mjög góður með 32 stig og 12 fráköst. Ragnar Helgi setti 7 stig, tók 6 fráköst og gaf 6 stoðsendingar.

 

 

Kjarninn

 

Njarðvíkingar eiga sennilega eftir að stilla sína strengi umtalsvert í vetur enda með talsvert breytt lið. Fölsku tónarnir voru aðeins of margir í kvöld en það hlýtur að lofa góðu að eiga samt í fullu tré við KR sem spiluðu eins og meistarar, einkum framan af leik.

 

Hvað KR-inga varðar þurfa þeir engu að kvíða. Þeir eru frábærir og svo virðist sem aðeins andleg vandkvæði eða enn frekari meiðsli geti sett strik í reikninginn.

 

Tölfræði leiksins

 

Myndasafn

 

Viðtöl:

Viðtal við Skúla Þórarinsson aðstoðarþjálfara KR eftir leik

Viðtal við Björn Kristjánsson leikmann KR eftir leik

Viðtal við Daníel Guðna Guðmundsson þjálfara Njarðvíkur eftir leik

 

Umfjöllun / Kári Viðarsson

Myndir / Ólafur Þór Jónsson