Misjafnt varð hlutskipti landsliðsmannanna Hauks Helga Pálssonar og Martins Hermannssonar í frönsku úrvalsdeildinni í kvöld. Haukur Helgi Pálsson var með 11 stig í naumum 76-77 útisigri Cholet á Bourg-en-Bresse. Fyrr í dag rituðum við að Cholet væri að leika gegn toppliði Le Mans en annað kom auðvitað á daginn og biðjumst við velvirðingar á þeirri misritun.

Haukur Helgi var í byrjunarliði Cholet og lék í 30 mínútur í leiknum og tók einnig 4 fráköst. Martin og Chalons-Reims töpuðu 93-80 á útivelli gegn Lyon-Villeurbanne. Martin skilaði flestum mínútum allra í kvöld fyrir Chalons-Reims eða 34 mín. og gerði 14 stig og tók 2 fráköst.

Haukur og Cholet færðu sig úr 17. sæti upp í 16. sæti með sigrinum í kvöld (2-7) en Chaolns-Reims fór niður í 8. sæti deildarinnar (7-4).