Toppslagur Dominos deildar kvenna fór fram í kvöld þegar Haukar tóku á móti Valskonum í Hafnarfirði. Bæði lið höfðu unnið alla sína leiki til þessa í deildinni og því ljóst að liðið sem færi með sigur myndi sitja eitt í efsta sæti að leik loknum.
Gangur leiksins:
Haukar fóru betur af stað og leiddu nánast allan fyrri hálfleikinn fyrir utan það er Valsarar settu saman í fínt áhlaup í öðrum leikhluta. Frammistaða Hauka var hinsvegar mun stöðugri á meðan Valskonur treystu mikið á áhlaupin. Vörn Vals var ekki góð framan af leik og Cherise Daniel og Rósa Björk sáu um stigaskorun. Staðan í hálfleik var 49-42.
Þriðji leikhluti sveik Valsara ansi mikið. Haukar gengu fljótt á lagið og náðu mest 18 stiga forystu um lok leikhlutans. Vörn Vals gat ekki keypt sér stopp og Haukar héldu lykilmönnum Vals algjörlega í skefjum.
Valskonur náðu fínu áhlaupi í fjórða leikhluta og munaði litlu að lokamínúturnar yrðu spennandi. Vörn Vals réð hinsvegar ekkert við sókn Hauka þar sem þær hittu gríðarlega vel og greinilega með sjálfstraustið í botni. Haukar kláruðu leikinn að lokum nokkuð örugglega og unnu 94-80 sigur.
Tölfræðin lýgur ekki:
Haukar tóku 46 fráköst gegn 30 hjá Valskonum. Þá voru heimakonur með mun betri nýtingu eða 52% nýtingu gegn 41% nýtingu Vals. Byrjunarlið Hauka var með 92 stig í kvöld en bekkurinn skilaði einungis tveimur stigum.
Hetjan:
Valur setti mikla áherslu á að stöðva Helenu Sverrisdóttir í kvöld og fékk hún því lítið pláss til að skjóta og var með 11 stig. Fyrir vikið fann hún hinsvegar liðsfélaga sína bara enn betur og skapaði fyrir þær. Fyrir vikið var hún með litlar 16 stoðsendingar í leiknum. Auk þess bætti hún við 13 fráköstum og var því með þrefalda tvennu eða þrennu. Rósa Björk Pétursdóttir átti líklega sinn besta leik í meistaraflokki í kvöld, var með 25 stig, 9 fráköst og hitti mjög vel. Þá væri ósanngjarnt að segja ekki frá Cherise Daniel sem var með 26 stig og virðist mikill liðsspilari.
Kjarninn:
Það er ekki flókið í dag. Haukar sitja einir á á toppi Dominos deildar kvenna eftir fjórar umferðir auk þess að vera taplausar. Liðið spilar með mikið sjálfstraust og virðst blómstra með Helenu Sverrisdóttur fremsta í flokki. Ungu leikmennirnir í byrjunarliðinu, Dýrfinna, Þóra Kristín og Rósa eru að sýna hvers þær eru megnugar og verður mjög spennandi að fylgjast með liðinu áfram í vetur.
Valsliðið þarf ekki að hafa stórar áhyggjur af frammistöðunni í kvöld. Liðið náði ekki að halda uppi stöðugt góðri frammistöðu og vörnin lennti í miklum vandræðum þegar Haukar leystu tvöföldunina á Helenu. Liðið er í fínum takti og ef liðið nær að bæta sig með hverjum leiknum þá eru þær til alls vísar.
Myndasafn (Axel Finnur Gylfason)
Viðtöl eftir leik: (Væntanlegt)
Darri Freyr Atlason þjálfari Vals eftir leik
Ingvar Þór Guðjónsson þjálfari Hauka eftir leik
Helena Sverrisdóttir leikmaður Hauka eftir leik
Umfjöllun og viðtöl / Ólafur Þór Jónsson
Myndir / Axel Finnur Gylfason