Haukar fengu Þórsara frá Þorlákshöfn í heimsókn í þriðju umferð deildarinnar í kvöld. Örlagadísirnar hafa ekki verið Þórsurum hliðhollar í byrjun móts og það ætlar ekkert að breytast strax því þeir mættu Kanalausir til leiks í kvöld vegna meiðsla. Heimamenn eru hins vegar eins og vaknaðir úr dvala eftir komu Kára og Paul Jones.

 

Þáttaskil

 

Haukar sýndu strax í byrjun að þeir ætluðu að vinna þennan leik og skemmta sér við það verkefni. Sóknarleikurinn var algerlega til fyrirmyndar, frábært flæði og skotin duttu þar af leiðandi ofan í. Þórsarar áttu engin svör varnarlega og sóknarleikurinn taktlaus. Heimamenn voru fljótt komnir með 10 stiga forystu og eftir fyrsta fjórðung var staðan 26-12. Emil Barja fór fyrir sínum mönnum með 8 stig, 4 stoðsendingar, 3 fráköst og 3 stolna bolta!

 

Gestirnir keyrðu af meiri ákveðni á körfuna í öðrum leikhluta, sennilega í takt við fyrirmæli, og það gekk til að byrja með. Þarna var byrjunarlið Hauka að mestu á bekknum og Þórsarar náðu að minnka muninn í 29-20. Ívar hleypti sínum helstu hestum þá aftur inn á og þess var ekki langt að bíða að þeir nánast gengu frá leiknum. Staðan var 53-32 í hálfleik.

 

Þórsarar reyndu að breyta takti leiksins með svæðisvörn í þriðja leikhluta. Það heppnast stundum eins og allir körfuboltaáhugamenn vita en alls ekki að þessu sinni! Ívar talaði einmitt um það eftir bikarleikinn gegn Stjörnunni að það væri kannski ástæða til að skerpa aðeins á áherslum gegn svæðisvörn og það var útlit fyrir að það hafi skilað sér. Haukar gerðu í raun endanlega út um leikinn með þremur þristum í röð gegn svæðinu, staðan orðin 68-38, úrslitin ráðin og enn um 5 mínútur eftir af þriðja. 

 

Byrjunarliðsleikmenn beggja liðu tóku lítinn þátt í fjórða fjórðungi og reyndar í seinni hluta þess þriðja líka. Adam Eiður og Magnús Breki nýttu sínar mínútur vel af bekknum hjá Þór og settu allnokkra flotta þrista. Minni spámenn Hauka gáfu þó lítið eftir og 96-64 sigur heimamanna var vægast sagt aldrei í hættu.

 

 

Tölfræðin lýgur ekki

 

Haukar höfðu eðlilega betur í öllum tölfræðiþáttum í þessum leik. Til gamans má benda á að 8 leikmenn Hauka settu einn þrist eða fleiri í leiknum!

 

Bestu leikmenn

 

Emil Barja og Finnur Atli voru mjög álíka frábærir í leiknum. Finnur setti 15 stig, tók 10 fráköst og gaf 6 stoðsendingar á 19 mínútum og Emil endaði með 13 stig, 6 fráköst og 10 stoðsendingar á 20 mínútum. Paul Jones var þó stigahæstur með 22 stig.

 

 

Kjarninn

 

Einar Árni getur ekki verið sáttur við frammistöðu sinna manna, eins og hann staðfestir í viðtali við karfan.is eftir leik. Lítið gagn er af því að falla í einhverja sjálfsvorkunn hvað sem veikindum og meiðslum líður. E.t.v. geta Þórsarar náð fótfestu á botninum fræga og spyrnt sér upp á við.

 

Haukar eru með fullri meðvitund þessi dægrin og stemmningin vafalaust góð í hópnum. Það er þó ástæðulaust að tapa sér í ævintýraheiminum strax en það verður spennandi að sjá framhaldið hjá liðinu.

 

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Ólafur Þór Jónsson)

Myndasafn (Davíð Þór)

 

 

Viðtöl eftir leik: (Væntanlegt)

 

Umfjöllun / Kári Viðarsson 

Myndir / Ólafur Þór Jónsson