Stjarnan tók í kvöld á móti Íslandsmeisturum KR í annarri umferð Domino’s deildar karla. Viðureignir þessara liða hafa í gegnum árin verið frábær skemmtun og á því var engin breyting í kvöld. Eftir erfiða fæðingu þar sem einungis voru skoruð 22 í fyrsta leikhluta sprakk allt í háaloft í seinni hálfleik. Svo fór að Stjarnan vann þriggja stiga sigur, 75-72, í æsispennandi leik sem hafði allt sem góður körfuboltaleikur þarf. 

 

Lykillinn

 

Leikurinn var jafn og æsispennandi allt fram á lokasekúndurnar. Þegar 9 sekúndur voru eftir af leiknum var staðan 73-69, heimamönnum í vil og KR-ingar tóku leikhlé. Að leikhlénu loknu smellti Björn Kristjánsson niður þrist og minnkaði muninn í 73-72. Eftir það fór af stað einkennileg atburðarás. KR-ingar vildu meina að leikklukkan hefði ekki verið stoppuð á réttum tíma eftir að Björn skoraði. Stjörnumenn fóru upp í sókn og Pavel Ermolinski braut á Arnþóri Frey Guðmundssyni og fékk dæmda á sig óíþróttamannslega villu. Pavel hafði áður í leiknum fengið dæmda á sig tæknivillu, og var honum því vísað úr húsi. Við þetta trylltust gestirnir og helltu sér yfir dómara og starfsfólk leiksins sem leiddi til þess að KR-ingar fengu dæmda tæknivillu á bekkinn. Stjörnumenn fengu því þrjú víti auk boltans þegar einungis var rúm sekúnda eftir af leiknum. Arnþór setti tvö vítanna niður og tryggði Stjörnumönnum sigurinn, 75-72.

 

Hetjan

 

Hlynur Bæringsson bar af í kvöld. Landsliðsfyrirliðinn skoraði 13 stig, tók 21 frákast og varði tvö gríðarmikilvæg skot á ögurstundu. Gestirnir réðu einfaldlega ekkert við Hlyn, sem tók 11 fráköst í fyrsta leikhluta einum saman, þó að vissulega hafi verið nóg af skotum til að frákasta í þeim fjórðungi. Einnig er vert að nefna framlag Arnþórs Freys, en hann var stigahæstur Stjörnumanna með 21 stig og þar á meðal risaþrist undir lok leiks sem minnti helst á Dirk Nowitzki. 

 

Enginn Kani, ekkert mál

 

Stjörnumenn léku án Collin Pryor í kvöld, en Pryor var í borgaralegum klæðum á bekk Garðbæinga. Það kom þó ekki að sök.

 

Hreðjatak

 

Stjörnumenn hafa nú unnið síðustu fimm deildarleiki sína gegn KR, en síðasti sigur Vesturbæinga gegn Garðbæingum kom í mars 2015. 

 

Niðurstaðan

 

Stjörnumenn eru áfram taplausir í Domino’s deildinni á meðan KR tapar sínum fyrsta leik í vetur. Næsti leikur Garðbæinga í deildinni er á útivelli gegn Njarðvík en Íslandsmeistararnir fá ÍR í heimsókn í DHL höllina.

 

Tölfræði leiksins

 

Myndasafn (Ólafur Þór Jónsson)

 

Viðtöl: 

 

Viðtal við Finn Frey Stefánsson þjálfara KR eftir leik

Viðtal við Hrafn Kristjánsson þjálfara Stjörnunnar eftir leik

Viðtal við Arnþór Freyr Guðmundsson leikmann Stjörnunnar eftir leik

 

Umfjöllun / Elías Karl Guðmundsson