Grindvíkurstúlkur tóku á móti stöllum sínum frá Akureyri, n.t. Þórsurum í fyrri leik liðanna þessa helgina og má segja að andrúmsloftið hafi verið trega bundið en bæði lið fengu að finna fyrir sviplegu fráfalli Magnúsar Andra Hjaltasonar, fyrrum formanns kkd. Umfg.  Einn lykilleikmanna Þórs er einmitt dóttir Magga, Erna Rún.  Erna sýndi mikinn styrk og mætti á leikinn en spilaði ekki og var rafmögnuð stemning þegar mínútuþögn var fyrir leikinn í minningu þessa mikla meistara sem Magnús Andri var en í leiðinni var Dagbjarts Einarssonar minnst en þar fór annar meistari sem féll frá í síðustu viku.

 

Þáttaskil

Enn og aftur lendi ég í vandræðum með að koma auga á einhver sérstök kaflaskil í leiknum en helst dettur mér í hug að minnast á endurkomu hinna ungu Þórskvenna en Grindavík var komið með forskotið í rúm 10 stig í lok þriðja leikhluta og héldu þá eflaust margir að eftirleikurinn yrði auðveldur en svo var aldeilis ekki.  Þórsstelpur áttu síðasta skot leiksins og hefðu eins og lokatölurnar gefa til kynna, getað jafnað leikinn með 3-stiga skoti.

 

Tölfræðin lýgur ekki

Hittni leikmanna var vægast sagt döpur!  Heimastúlkur með 28/71 (28%) og Þórskonur með 21/84 (25%)!!

Sú sem skilaði flestum framlagspunktum í dag var frákasta-maskínan úr Grindavík, Helga Rut Hallgrímsdóttir en hún reif niður hvorki fleiri né færri en 22 fráköst í dag!  Ef hittni hennar undir körfunni hefði verið í sama takti þá hefðu úrslitin jafnvel getað orðið önnur en hún setti einungis 4/14 og oft á tíðum í góðri stöðu undir körfunni.  En í huga undirritaðs á þessi leikmaður klárlega heima í efstu deild!  Heiða Hlín skilaði líka flottri tvennu, 18 stig og 10 fráköst en hefði sömuleiðis mátt nýta skotin sín betur (7/24). 

Hjá Grindvíkingum skilaði unglingalandsliðskonan Ólöf Rún Óladóttir flestum punktum, 21 (22 stig og 12 fráköst) en hún eins og aðrir leikmenn var ekki á fjölinni sinni (6/24).  Landsliðskonan Embla skilar alltaf sínu en 16 framlagspunktar duttu inn í dag (20 stig og 13 fráköst).  Þeir hefðu orðið talsvert fleiri ef Embla hefði hitt betur en hún setti einungis 6/19 skotum sínum niður og brenndi til að mynda af öllum 3-stiga skotunum sínum.

 

Hetjan

Körfuboltasamfélagið er HETJAN þessa helgina!  Eins og í gær greiddu allir leikmenn sig inn á leikinn en allur aðgangseyrir þessarar helgar rennur óskiptur til fjölskyldu Magga Andra.  Það er einfaldlega stórkostlegt að sjá samhuginn hjá fólki þegar eitthvað bjátar á hjá náunganum!

 

Kjarninn

Eins og í flestum útileikjum Þórskvenna þá er sparnaðarleiðin tekin á þetta og því mætast liðin aftur á morgun, kl. 14:30.  Stuttur tími til endurheimtar og verður fróðlegt að sjá hvernig liðin meta stöðuna út frá fyrri hálfleiknum í dag.

 

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

 

Umfjöllun / Sigurbjörn Daði Dagbjartsson

Myndir / Benóný Þórhallsson

 

Viðtöl: