Fjölnir og Snæfell áttust við í Dalhúsum í kvöld í 3. umferð 1. deildar karla. Fjölnir tók forystuna strax í upphafi leik og náði mest 18 stiga forskoti um miðjan þriðja leikhluta. Þá tók Snæfell leikhlé og hóf í kjölfarið að spila stífa pressuvörn á Fjölnismenn sem skilaði sér í að einungis 5 stig skildu liðin að þegar rúmar 3 mínútur voru til leiksloka. Nær komst Snæfell ekki og Fjölnir sigraði leikinn með 11 stigum, 91-80.

Samuel Prescott Jr. lék sinn fyrsta leik fyrir Fjölni í kvöld en hann kom til liðsins í stað Tony Freeland. Prescott er ekki ókunnur íslenskum körfubolta því á síðasta tímabili lék hann með 1. deildar liði Hamars. Virtist hann falla vel inn í leik Fjölnis og var hann atkvæðamestur heimamanna með 35 stig og 6 fráköst á rétt tæpum 40 mínútum. Þá skoraði Sigvaldi Eggertsson 21 stig og tók 7 fráköst.

Hjá Snæfelli var það Christian Covile sem dróg vagninn, setti niður 34 stig, tók 5 fráköst og var með 5 stolna bolta. Þá skoraði Viktor Marínó Alexandersson 17 stig auk þess að gefa 4 stoðsendingar.  

Eftir leikinn í kvöld situr Fjölnir í 3.-4. sæti deildarinnar ásamt Vestra en bæði lið hafa sigrað tvo leiki og tapað einum. Snæfell er í 5.-6. sæti með einn sigurleik líkt og Hamar en Hvergerðingar eiga leik til góða.

Tölfræði leiks

Myndasafn úr leik (Bára Dröfn)

Fjölnir: Samuel Prescott Jr. 35/6 fráköst, Sigvald Eggertsson 21/7 fráköst, Hlynur Logi Ingólfsson 10/6 fráköst, Daníel Freyr Friðriksson 7/7 stoðsendingar, Alexander Þór Hafþórsson 7/4 fráköst, Sigmar Jóhann Bjarnason 6, Davíð Alexander H. Magnússon 5, Sigmar Logi Björnsson 0, Jón Rúnar Baldvinsson 0, Daníel Bjarki Stefánsson 0, Brynjar Birgisson 0, Andri Jökulsson 0.

Snæfell: Christian Covile 34/5 fráköst, Viktor Marínó Alexandersson 17/4 stoð, Þorbergur Helgi Sæþórsson 10, Rúnar Þór Ragnarsson 6/5 fráköst, Nökkvi Már Nökkvason 6, Jón Páll Gunnarsson 4, Viktor Brimir Ásmundarson 3, Geir Elías Úlfur Helgason 0, Tómas Helgi Baldursson 0, Andri Þór Hinriksson 0, Elías Björn Björnsson 0.