FSu tapaði fyrir Skallagrím í fyrstu umferð 1. deildar karla sem hófst í gær. Félagið hefur fengið til sín spennandi leikmenn í sumar og koma klárlega sterkir til leiks. 

 

Það vakti athygli að erlendi leikmaður FSu, Jett Speelman lék ekki með liðinu í gær. Ástæðan var sú að hann tók í gær út bann gegn Skallagrím vegna háttsemi sinnar í æfingaleik gegn Gnúpverjum þann 21. september síðastliðinn. Í úrskurði Aga- og úrskurðarnefnd KKÍ segir: „Með vísan til ákvæðis 2. mgr. 6. gr. reglugerðar um aga- og úrskurðarmála hefur nefndin ákveðið að taka mál þetta til úrskurðar. Með vísan til ákvæðis c. liðar 1. mgr. 13. gr. sömu reglugerðarl skal hinn kærði, Jett Speelman, leikmaður FSU, sæta eins leiks banni vegna háttsemi sinnar í æfingarleik FSU og Gnúpverja í meistaraflokki karla, sem leikinn var þann 21. september 2017. Nefndin áréttar þá almennu reglu með vísan í o. lið 1. mgr. 13. gr. áðurnefndrar reglugerðar að leikbann skal afplána í leikjum í Íslandsmóti, bikarkeppnum, fyrirtækjabikar eða meistarakeppni KKÍ.“ 

 

Samkvæmt reglugerðum KKÍ má aga- og úrskurðarnefnd KKÍ heimild til að úrskurða um öll mál sem koma að körfuboltaleikjum sem fram fara á landinu. Þar sem KKÍ dómarar dæmdu æfingaleik FSu og Gnúpverja þá hefur aganefnd heimild til að úrskurða um þetta atvik sem Speelman fær bann fyrir. 

 

Atvikið var tekið fyrir á fundi nefndarinnar í byrjun þessarar viku þar sem Speelmann var úrskurðaður í eins leiks bann fyrir háttsemi sína. Dómarnir tóku gildi á hádegi fimmtudaginn 5. október og tók leikmaðurinn því út leikbannið í fyrsta leik deildarinnar er liðið mætti Skallagrím. FSu lék aðra æfingaleiki á milli æfingaleiksins gegn Gnúpverjum og leiksins gegn Skallagrím en Speelman gat lögum samkvæmt ekki tekið út dóminn í þeim leikjum. 

 

Það er ekki á hverjum degi sem leikmenn fá bönn fyrir háttsemi eða atvik í æfingaleikjum en reglugerðir KKÍ gera það sannarlega mögulegt. Nokkur óánægja var hjá forráðamönnum FSu vegna þessa og var til að mynda Gylfi Þorkellsson formaður FSu harðorður á Facebook síðu sinni í gærkvöldi um málsmeðferð aganefndar. 

 

Það er nokkuð ljóst að FSu og Gnúpverjar munu elda grátt silfur saman í vetur en Aganefnd tók einnig fyrir á fundi sínum atvik sem gerðist í æfingaleik liðanna þann 29. ágúst síðastliðinn. Þá var Sveini Hafsteini Gunnarssyni vikið af velli vegna tæknivillu og óíþróttamannslegrar villu. Nefndin komst hinsvegar að þeirri niðurstöðu að leikmaðurinn ætti ekki að fá refsingu í því tilviki. 

 

Jett Speelman verður aftur á móti kominn aftur á völlinn í næstu umferð er FSu heimsækir Snæfell þann 12. október næstkomandi. 

 

Fundarskýrslu aga- og úrskurðarnefndar KKÍ frá 4. október má finna hér.