Haukar sigruðu Þór í þriðju umferð Dominos deildar karla fyrr í kvöld. Karfan spjallaði við þjálfara Þórs, Einar Árna Jóhannsson, eftir leik í DB Schenker Höllinni í Hafnarfirði.

 

Hérna er meira um leikinn

 

 

Veturinn fer hræðilega af stað hjá ykkur og óheppnin eltir ykkur – veikindi og svo nú meiðsli Kanans ykkar – hver er staðan á honum?

Það er bara í ferli – hann sneri sig á Króknum og hefur verið í endurhæfingu. Við vonum að hann verði kominn í slaginn fljótlega. Það verður bara að koma í ljós hvernig það þróast.

 

Þrátt fyrir það að mæta í þennan leik Kanalausir þá ertu væntanlega ekkert sérstaklega ánægður með frammistöðu liðsins í kvöld?

Nei, enda engin ástæða til að skýla sér á bakvið það að það vanti einn leikmann hvers lenskur sem hann er. Við vorum bara algerlega týndir varnarlega hér í kvöld og fyrstu 30 mínúturnar voru ekkert í líkingu við það sem við viljum standa fyrir. Ég pirra mig ekki mikið á sóknarleiknum, við hittum illa og tókum oft á tíðum ekki góðar ákvarðanir en vandamálið er frekar varnarleikurinn sem var ekki til útflutnings og skilar okkur ekki nokkrum sköpuðum hlut. Við getum ekkert verið að væla yfir því sem búið er, það voru 12 menn í búning og þurfum að treysta því að þeir mæti tilbúnir en það var ekki tilfellið í dag. Ég held að við höfum dunkað okkur all hressilega á botninn, ekki bara snert hann! Þá er bara ráð að spyrna sér upp og kannski ágætt að fara með það inn í helgina.

 

Já – þið eruð ofan í holu á botninum og getið ekki annað en farið upp á við – t.d. með bættri vörn?

Jájá, þetta er langur vetur – þetta voru bara 2 stig sem töpuðust í kvöld – við þurfum að horfa á frammistöðu okkar í upphafi móts varnarlega og hún er langt frá því sem við viljum sýna. Vð höfum ekki verið að fá á okkur 50 stig í hálfleik síðustu 2 ár en nú er það búið að gerast í þremur leikjum og það var lítið betra í þeim fjórða heima gegn Njarðvík. Þegar vörnin er svona slök þá er sóknarleikurinn aldrei að skína. Það er helst að maður sé ánægður með ungu mennina sem voru að stíga hérna á gólfið í fyrsta skiptið í vetur.