Breiðablik gerði góða ferð í Ljónagryfjuna í dag þegar Kópavogskonur lögðu Njarðvík 67-81. Á kafla virtust Njarðvíkurkonur líklegar til að finna sinn fyrsta deildarsigur þetta tímabilið en Blikar með Ivory Crawford í broddi fylkingar höfðu betur. Crawford lauk leik með 38 stig, 18 fráköst og 3 stoðsendingar. Hjá Njarðvíkingum var Shalonda Winton fremur sein í gang en lét þó fyrir sér finna með 32 stig, 17 fráköst og 3 stoðsendingar.

Þáttaskil
Njarðvíkingar leiddu 34-32 í hálfleik og komust svo í 40-32 en Blikar settu 11-0 áhlaup í gang og leiddu svo 47-53 að loknum þriðja leikhluta. Þessi þriðji leikhluti fór 13-23 fyrir Blika og virtist gefa þeim nægilegt sjálfstraust til að ná sterkum og góðum tökum á restinni af leiknum og sigla sigrinum örugglega heim.

Hetjan
Ivory Crawford var tvímælalaust hetja Blika í leiknum, grimm á báðum endum vallarins og margt í kringum hana kveikt þónokkrar skyndisóknir Blika sem keryðu vel í bak heimakvenna í dag.

Kjarninn
Kjarni leiksins endurspeglaðist nokkuð í því að Njarðvíkurkonur eru að leita að sínum fyrsta sigri. Blikar hinsvegar búnir að vinna tvo leiki fyrir leikinn í dag. Njarðvíkingar sýndu margar fínar rispur en Blikar voru iðnir við að keyra í bak þeirra og þá var þolinmæðin í sóknarleik gestanna meiri og uppskáru þær betri skot fyrir vikið. Skotnýting Njarðvíkinga hefur einnig verið fremur lág í upphafi leiktíðar en ef þeim tekst að breyta því gæti fyrsti sigurinn fundist.
Þó ber ekki að skilja að Crawford í liði Blika hafi verið ein að verki í dag því Telma Lind, Sóllila og Marín Laufey áttu allar þrjár flottar rispur fyrir gestina.

Myndasafn úr leiknum
Tölfræði leiksins