Tindastóll tók á móti ÍR-ingum í fyrstu umferð Dominos deildar karla í körfuknattleik í kvöld í Síkinu.

Eftir að Stólar höfðu náð 22ja stiga forskoti um miðjan þriðja leikhluta var eins og slökkt hefði verið á þeim og þeir skoruðu aðeins 11 stig síðustu 15 mínútur leiksins.  ÍR seig framúr og landaði sigri 71-74

 

Þáttaskil: 

 

Þegar Trausti Eiríksson setti þrist um miðjan þriðja leikhluta og minnkaði muninn sást að ÍR var ekki að gefast upp svo auðveldlega en jafnframt virtist heimamönnum vera skítsama.  Það var eins og Tindastólsmenn væru komnir í eitthvað ´comfort zone´, töldu sigurinn í höfn og hættu að einbeita sér að því að klára verkefnið.  Því fór sem fór.

 

Tölfræðin lýgur ekki:

Þetta var gríðarlega jafn leikur.  ÍR hitti aðeins betur, enda höfðu þeir sigur en liðin voru ótrúlega jöfn í flestum tölfræðiþáttum

 

Hetjan:

Danero Thomas og Ryan Taylor drógu ÍR vagninn þegar á reyndi.  Taylor er gríðarlega sterkur og áttu heimamenn erfitt með hann undir körfunni.  

 

Kjarninn:

Eins undarlega og það hljómar þá var Tindastólsliðinu einfaldlega ekki nógu vel stjórnað í þessum leik, hvorki innan vallar né utan.  Sóknarleikurinn var á köflum vandræðalegur og hugarfarið klikkaði þegar munurinn fór að minnka í síðasta fjórðung og þjálfarateymið greip of seint inn í.  Borche gerði aftur á móti gríðarlega vel hinumegin og aldrei skal vanmeta þá baráttu sem Sveinbirni Claessen tekst að blása þessu liði í brjóst.  
 

Tölfræði leiksins 

 

Myndasafn

 

Umfjöllun / Hjalti Árnason

Mynd: Hjalti Árnason –  Borche Ilievski ánægður eftir leik