Njarðvík og Skallagrímur áttust við í Ljónagryfjunni í fyrstu umferð Domino´s-deildar kvenna í kvöld. Þetta var eins og gefur að skilja fyrsta heimsókn Carmen Tyson-Thomas í Ljónagryfjuna síðan hún var látin fara frá félaginu á síðustu leiktíð. CTT eins og hún er oftar en ekki kölluð lét fyrrum liðsfélaga sína finna nokkuð til tevatnsins í kvöld með kunnuglegum tölum eða 32 stig, 22 fráköst, 4 stoðendingar, 5 stolna bolta og 4 varin skot!

María Jónsdóttir fann fjölina vel í upphafi leiks og gerði 8 fyrstu stig Njarðvíkur. Skallagrímur var þó með frumkvæðið í fyrsta leikhluta og leiddi 18-25 að honum loknum þar sem Carmen Tyson-Thomas var komin með 14 stig á sínum gamla heimavelli.

Erika Williams bandarískur leikmaður Njarðvíkinga átti erfitt uppdráttar í kvöld og tókst ekki að skora í fyrri hálfleik og virkaði fremur litlaus þessar fyrstu 20 mínútur. Hinsvegar vantaði engan lit í annan nýliða í Njarðvík þar sem Hrund Skúladóttir kom með 8 stig af bekknum og barðist vel. Borgnesingarnir Sigrún Sjöfn og Carmen fóru hinsvegar mikinn saman í fyrri hálfleik með 33 af 46 stigum Skallagríms, Sigrún með 13 og Carmen með 20 í leikhléi þar sem gestirnir leiddu 36-46.

Erika Williams gerði loks sín fyrstu stig fyrir Njarðvík um miðbik þriðja leikhltua og það af vítalínunni en þrátt fyrir skort á ógn af hennar hálfu sóknarmegin létu Njarðvíkingar ekki stinga sig af og héldu bilinu í kringum 10 stiga muninn þar sem Borgnesingar leiddu 50-62 að loknum þriðja leikhluta.

Gestirnir í Skallagrím sigu framúr í fjórða leikhluta þar sem lokatölur reyndust 66-84 Skallagrím í vil. Eins og áður hefur komið fram fór Carmen Tyson-Thomas mikinn hjá Skallagrím en Hrund Skúladóttir var atkvæðamest í liði Njarðvíkinga í kvöld með 17 stig. Góður útisigur hjá Skallagrím í þessari fyrstu umferð en í annarri umferð mætast Skallagrímur og Snæfell í Stykkishólmi en Njarðvík heimsækir Hauka í Hafnarfjörð.

Tölfræði leiksins

Myndir/ SBS