Vesturlandið á eftir að skjálfa nokkrum sinnum þetta tímabilið í 1. deildinni þar sem ÍA, Skallagrímur og Snæfell leika öll saman í deild í fyrsta skipti síðan liðin léku öll í Epson deildinni árið 2000.

Fyrsti vesturlandsskjálftinn reið yfir í kvöld þegar ÍA tók á móti Skallagrími á Akranesi og segir orðið á götunni að mælar Veðurstofu Íslands hafi ekki farið í nema 0,5 á Richterkvarða þeirra.

 

Liðin voru á ólíkum stað í deildinni fyrir þennan leik.  Skallagrímsmenn voru ósigraðir í 3 leikjum á meðan ÍA hafði tapað fyrstu 3 leikjum sínum.  Skallagrímur hefur unnið þessa þrjá leiki sína með að meðaltali 13,3 stiga mun á meðan ÍA hafði tapað sínum með að meðaltali 4,6 stiga mun.

Bæði lið komu þó til leiks í kvöld með tap á bakinu frá síðasta leik.  Heimamenn í ÍA töpuðu nokkuð óvænt fyrir nýliðum Gnúpverja á útivelli á meðan Skallagrímur tapaði mjög óvænt í Maltbikarnum gegn Njarðvík B einnig á útivelli.  Þannig að bæði lið mættu með beltin spennt og ljósin kveikt enda þráðu þau mjög að ná í sigur í kvöld til að komast á Sigurbrautina því það nennir enginn að keyra lengi á Tapbrautinni.

 

 

Þáttaskil: 

 

Annað liðið mætti tilbúið til leiks í kvöld, sem er frekar skrítið miðað við að við erum að tala um ÍA – Skallagrímur.  Þetta lið voru gestirnir úr Borgarnesi.

 

Hetjan:

 

Leikskipulag Skallagríms var hetjan í kvöld.  Vel undirbúnir og leikmenn gerðu greinilega það sem fyrir þá var lagt fyrir leikinn.

 

Kjarninn:

 

Ef leikurinn í kvöld væri epli þá væri það fyrsta eplið í sögunni þar sem kjarninn er utaná því.  Svo augljós er kjarni þessa leiks.  Skallagrímsmenn mættu tilbúnir til leiks og gerðu sitt á meðan ÍA virkaði eins og stjórnmálflokkur daginn eftir góðar kosningar.

Þetta skilaði Skallagrími auðveldum 77 – 107 útisigri og Skallagrímur er því 4-0 í deildinni á meðan ÍA er 0-4.  Ólíkara verður hlutskipti liðanna ekki.

 

 

Myndasafn (Ólafur Þór Jónsson)

 

Mynd – Karfan.is

Texti: HGH