Snæfell tilkynnti rétt í þessu á Facebook-síðu sinni að hin magnaða Kristen McCarthy væri á leið aftur í raðir Snæfellinga en hún hefur samið við félagið til eins árs.

Í tilkynningu Hólmara segir:

Hin magnaða Kristen Denise McCarthy sem lék með Snæfell 2014-2015 og varð deildar- og Íslandsmeistari með liðinu skrifaði í dag undir samning um að leika með Snæfell á næsta tímabili. Það er með miklu stolti sem körfuknattleiksdeild Snæfells tilkynnir samning Kristen sem er til eins árs

Kristen skoraði 28.2 stig í leik, reif niður 12.8 fráköst og gaf 3.2 stoðsendingar í leik. Daman leikur stöðu vængmanns og er mjög fjölhæfur leikmaður sem á eftir að styrkja liðið innan sem og utan vallar.

Síðan að Kristen lék á Íslandi síðast hefur hún leikið í Rúmeníu og Þýskalandi þar sem hún hefur leikið vel og skorað í kringum 16 stig í leik í þeim deildum.

Kristen er okkur Snæfellsfjölskyldunni vel kunnug en hún hefur haldið miklu og góðu sambandi við leikmenn, þjálfara og stjórnarfólk eftir að hún lék hérna og heimsótt liðið marg oft.