Bryndís Guðmundsdóttir landsliðskona og leikmaður Snæfell mun ekki koma til með að spila á komandi tímabili en í samtali við Karfan.is sagðist hún vera með barni og væri von á erfingja í Janúar nk. "Já ég kem ekki til með að spila í það minnsta á komandi tímabili þar sem ég er ólétt." sagði Bryndís.   Bryndís spilaði með liði Snæfell síðustu tvö tímabil og uppskar á þeim einn íslandsmeistaratitil og bikarmeistaratitil.  Bryndís er hinsvegar uppalin í Keflavík og ferill hennar í efstu deild spanar 14 ár.  Það var 7. febrúar 2004 sem að Bryndís tók sinn fyrsta stóra titil þegar Keflavík sigraði KR í Doritos Bikarnum og sama árið tók Keflavík einnig íslandsmeistaratitilinn.  Í heildina varð Bryndís 6 sinnum Íslandsmeistari og 4 sinnum bikarmeistari á sínum ferli. 

 

"Síðasta tímabil var erfitt að púsla saman spilamennsku og vinnunni þar sem ég starfa sem flugfreyja. Ég í raun spilaði bara og æfði mjög lítið og þannig vil ég ekki hafa það þó það hljómi kannski vel fyrir einhverja. Ég ætla ekkert að segja að ferlinum sé endanlega lokið þó svo að líkurnar eru kannski meiri en minni." sagði Bryndís að lokum. 

 

Karfan.is sendir Bryndísi og unnusta hennar heillaóskir.