Eins og fram kom fyrr í dag mun KR taka þátt í Evrópukeppni á nýjan leik á næsta tímabili í fyrsta skipti síðan árið 2008. Stórt skref bæði fyrir félagið sem og íslenskan körfuknattleik að taka aftur þátt á því sviði, en keppnin sem að KR-ingr fara í er FIBA Europe Cup. Við heyrðum í þjálfara liðsins, Finn Frey Stefánssyni og spurðum hann út í þetta nýja verkefni.

 

Stórt skref fyrir félagið að skrá sig til leiks, hvað liggur að baki svona ákvörðun?

"Við teljum það vera rökrétt skref fyrir bæði okkur og íslenskan körfubolta að félagsliðin okkar hefji á ný þatttöku i Evrópukeppnum á vegum FIBA Europe. Þetta er stærri ákvörðun en margur heldur, en töluverð fjárhagsleg skuldbinding. Því miður er landslagið i Evrópska körfuboltanum ekki enn orðið einsog i fótboltanum þar sem lið fá háar upphæðir fyrir það eitt að taka þátt. Þetta er fyrst og fremst kostnaður sem leggst á okkur og er ég þvi þakklátur stjórn deildarinnar að taka skrefið."

Sérðu fram á að þurfa að styrkja hópinn þinn mikið?

"Við munum treysta áfram á þennan kjarna okkar sem hefur verið hryggsúlan i árangri okkar undanfarin ár. Það verða þó einhverjar viðbætur sem munu skýrast a næstunni. Við viljum líka geta gefið okkar ungu og efnilegu strákum smjörþefinn af þessari keppni."

Hversu sterk eru þessi lið sem þið eruð að fara að leika gegn?

"Við munum taka þátt í FIBA Europe Cup, en höfðum einnig möguleika á að fara inn í forkeppni Champions League, sem er töluvert stærra dæmi fjárhagslega. Við töldum Europe Cup rökrétt fyrsta skref fyrir okkur, en ef við förum i gegnum þessa viðureign munum við taka þátt í riðlakeppninni þar sem bætast við 6 leikir. Það er allur gangur a styrkleika þessara liða og getum við bæði verið heppnir eða óheppnir, það verður bara að koma i ljós."

Geta íslenskir körfuknattleiksáhangendur þá sameinast um að halda allir með KR?

"Ég á nú ekki von að sjá stuðningsmenn annarra liða í stúkunni i KR búningum en ég vona að fólk noti tækifærið og taki þátt í þessu með okkur og mæti a völlinn. Það er von okkar að íslensk félagslið, hvort sem það eru við eða einhver önnur, taki þatt i Evrópukeppnum á hverju ári héðan í frá. Það er rökrétt skref fyrir íslenska körfuboltann sem hefur verið a þessari fallegu uppsveiflu a undanförnum árum."