Í gær tilkynntum við að Þorleifur Ólafsson væri búinn að venda sínu kvæði í kross í körfuboltanum. Þá lofuðum við einnig ítarlegri viðtali við kappann og við stöndum að sjálfsögðu við það. Við fengum ýmislegt upp úr X-manninum sem hefur smávægilegar áhyggjur af því að hlaupa í spik að loknum ferlinum en segir þó ekkert athugavert við það að hafa smá bumbu.

Hver er helsta ástæðan fyrir því að þú ákvaðst að segja þetta gott núna?
Ég er aðallega að hætta útaf meiðslum. Ég hef verið meiddur lengi og það hefur verið erfiðara með hverju árinu sem líður að komast í almennilegt form.

Hvenær hófst ferillinn?
Ég byrjðaði að æfa mjög ungur eins og flestir gera, 5 eða 6 ára. Fyrstu meistaraflokks árin mín voru árið 2000.

Þegar þú varst að byrja, var einhver svona sem var erfiðari en flestir og einhver sem tók verðandi fyrirliðann undir sinn væng?
Ég man ekkert sérstaklega eftir því hvort einhver hafi tekið mig undir sinn vendarvæng enda tel ég það ekkert sérlega hollt fyrir ungan vitlausan leikmann! Það voru hinsvegar flottir menn að spila þegar ég byrjaði. Gummi Braga, Palli, Helgi og Gulli. Ég lærði mikið af þeim.

Hver var fyrsti leikurinn í meistaraflokki, manstu eftir honum?
Mig minnir að fyrsti leikurinn minn hafi verið á móti Haukum. Kom inn á síðustu mínútunni og var blokkaður í fyrsta skotinu sem ég tók!

Fyrsti titillinn, hvernig var það?
Ég verð að nefna fyrsta titilinn minn þegar við urðum Íslandsmeistarar í 10. flokki annars verður góður vinur minn brjálaður. Þá unnum við Kjartan og félaga í Stjörnunni. Ég var svo bikarmeistari árið 2006. Helgi og Pétur Guðmunds fóru á kostum í leiknum og Manni Vill kom inná á og setti risa þrist undir lok fyrri hálfleiks. Hann talar ennþá um þetta skot sem var glæsilegt og langt fyrir utan línuna eins og honum einum er lagið. Fysti Íslandmeistaratitillinn var árið 2012. Við vorum með rugl lið og það átti enginn séns í okkur. Allt árið var mjög lærdómsríkt. Við gátum rúllað vel á 9-10 mönnum og ef maður gerði mistök settist maður á bekkinn.

Eftirminnilegasti titillinn?
Eftirminnilegasti titillinn var Íslandsmeistaratitillinn árið 2013. Vorum komnir 2-1 undir á móti Stjörnunni. Enginn hafði trú á okkur en við rústuðum leik 4 og kláruðum dæmið heima í leik 5.

Eftirminnilegustu andstæðingarnir?
Ég man sérstaklega eftir því þegar við spiluðum á móti Njarðvík árið 2007 minnir mig. Þá voru þeir með Brenton og Ivey og ég fékk það hlutverk að dekka þá til skiptist. Báðir hrikalega góðir og skrýtið að þurfa að einbeita sér að því að dekka þá til skiptis. Árið 2009 þá spiluðum við á móti KR í úrslitum og þá var Jón ennþá ungur og virkilega sprækur. Sem betur fer fyrir mig þá dekkaði Brenton hann meira því ég átti engan séns í hann.

Eftirminnileg atvik eða leikir á ferlinum!
Eftirminnilegustu atvikin tengjast aðallega titlum eða meiðslum! Það er frábær upplifun að klára tímabilið með titli eftir allt það sem liðið hefur gengið í gengum. Svo man ég vel eftir því þegar Ólafur bróðir meiddist á ökkla og þegar ég sleit krossband. Svo man ég vel eftir því þegar ég var ungur leikmaður á bekknum og það voru einhver slagsmál inn á vellinum. Kaninn í hinu liðinu var eitthvað að böggast í einhverjum í okkar liði. Beggi Hinriks kom hlaupandi og stökk á gaurinn og tók hann hálstaki. Þarna lærði ég að ,,no matter what´´ þá bakkar maður liðsfélagana alltaf upp.

Gullárin í Grindavík þegar þið tókuð tvo í röð, hvað lá að baki þessum titlum?
Þessi ár voru frábær og byrjuðu þegar Helgi Jónas tók við sem þjálfari. Fyrsta árið hans þá lentum við í kanarugli og náðum ekki að klára tímabilið eins og við hefðum viljað. Tímabilið 2011-2012 þá fengum við Jóa og Sigga til okkar og það var ekkert kanarugl það árið. Helgi kom með flotta sýn á þjálfunina og það er alveg sama hvert ég lít þá vorum við nánast 100% í öllu. Kláruðum fullt af leikjum sem voru nánast tapaðir og undir restina þá átti enginn séns í okkur! Þetta ár þá komst ég næst því að vera í atvinnumennsku. Allt sem við gerðum var útúr pælt og allir á sömu blaðsíðunni. Tímabilið eftir þá ákvað Helgi að hætta en þá fengum við Sverri til okkar sem hefur unnið ,„nokkra“ titla á sínum ferli. Við náðum að halda áfram þeirri vinnu sem við höfðum verið að gera árinu á undan. Þegar ég hugsa útí þetta tímabil þá gerði Sverrir ótrúlega vel með okkur. Sérstaklega á móti Stjörnunni undir restina. Það sem skapaði þessa tvo titla er eins og oftast þegar lið vinna titill. Vorum með vel mannað lið, góða kana og eins og alltaf í Grindavík frábært fólk bakvið tjöldin. Að mínu mati þá hefðum við unnið 3 ár í röð ef ég hefði ekki slitið krossband J


Staðan á boltanum í Grindavík í dag, hvernig metur þú horfurnar fyrir karla- og kvennalið félagsins?
Að mínu mati er staðan góð í Grindavik karlamegin. Það er alltaf metnaður til að gera vel og það eru nokkrir ungir leikmenn sem geta orðið góðir næstu árin. Það er alltaf erfitt að vera í toppnum og mikið þarf að ganga upp. Eins og staðan er núna þá erum við með góðan mannskap til að gera fína hluti næsta tímabil og getum verið bjarsýnir fyrir næstu ár. Að mínu mati get ég því miður ekki sagt það sama kvennamegin. Ég tel Grindavík samt sem áður vera í flottri stöðu núna til að stokka spilinn upp á nýtt og snúa við dæminu og vona ég innilega að það takist. Við eigum nóg af ungum efnilegum stelpum sem eru góðar í körfubolta. Reynsla mín segir mér hinsvegar að það er ekki nóg.

Ertu eitthvað að hugsa um þjálfun? Jafnvel á leið á tréverkið við hlið Jóhanns?
Ég mun mjög líklega eitthvað þjálfa í framtíðinni og jafnvel byrja ég strax næsta tímabil og kemur þá aðstoðamaður Jóhanns sterklega til greina. Ef ég verð ekki yfirlýstur aðstoðarmaður hans þá mun ég segja mína skoðun og ef hann er sá þjálfari sem fólk heldur að hann er þá mun hann hlusta á mig J

Ertu ekki smeykur um að körfuboltabakterían setjist á öxlina á þér og hvísli í eyrað að byrja aftur?
Aldrei að segja aldrei varðandi að byrja aftur. Ég hugsa samt að líkaminn sé kominn með nóg  og því mjög ólíklegt að ég byrji aftur.

Frá því þú byrjaðir í meistaraflokki, hvernig finnst þér þróunin hafa verið í íslensku úrvalsdeildinni?
Þróunin á körfunni hefur verið góð. Góðir leikmenn að koma heim úr atvinnumennsku sem styrkir deildina. Mikill metnaður í flestum þjálfurum um að gera betur og betur sem er gott. Persónulega finnst mér 3+2 reglan vera betri til að gera deildina sterkari. Því sterkari sem hún er því betri verða þeir leikmenn sem nenna að leggja á sig.

Framtíðarhorfur íslenska boltans, hvernig metur þú þær?
Framtíðin er góð. Landsliðið að gera flotta hluti. Fleiri leikmenn að fara út að spila. Hér finnst mér 3+2 reglan spila stórt hlutverk í að gera framtíðina enn bjartari.

Og að endingu, verður þú fljótur að hlaupa í spik?
Ég hef smá áhyggjur af því að hlaupa í spik. Ég ætla að leyfa mér í sumar og sjáum svo til. Það er ekkert að því er vera með smá bumbu!