Eins og flestum er kunnugt urðu Golden State Warriors NBA meistarar í nótt. Samkvæmt fregnum vestanhafs hafa leikmenn félagsins einróma hafnað hinni gömlu hefð um að meistarar í Bandaríkjunum heimsæki Hvíta húsið í boði forsetans en þar ræður ríkjum hinn umdeildi Donald Trump.

Hvorki félagið né leikmenn hafa gefið neitt út um þessa staðreynd en þegar hafa nú borist fjöldi fregna frá Bandaríkjunum þessa efnis.

Ef satt reynist er Golden State að feta ekki ósvipaðan veg og nokkrir nafntogaðir leikmenn New England Patriots sem hafði sigur í Ofurskálinni (SuperBowl). Þeirra á meðal sem voru ekki viðstaddir meistarafögnuð Patriots í Hvíta húsinu voru Tom Brady og Danny Amendola en alls 34 úr hópi Patriots mættu engu að síður í Hvíta húsið.