Fyrsta leik íslenska karlalandsliðsins á Smáþjóðaleikunum á Kýpur var að ljúka þar sem Ísland varð að sætta sig við 57-71 ósigur gegn Kýpur. Eftir brambolt á ferðalaginu á leið til San Marínó var s.s. vitað að þessi leikur gæti reynst liðinu erfiður. Tryggvi Snær Hlinason reyndist atkvæðamestur í íslenska liðinu í dag með 13 stig og 14 fráköst. Næstur Tryggva var Jón Axel Guðmundsson með 8 stig og 5 fráköst.

 

Viðureign þjóðanna var sú 21. í röðinni og eftir leikinn í dag hefur Ísland unnið 11 landsleiki gegn Kýpur en Kýpur unnið 10. Þessi 14 stiga sigur Kýpverja í dag er fjórði stærsti sigur Kýpur á Íslandi frá upphafi en þjóðirnar mættust fyrst árið 1988 á Promotion Cup á Möltu þar sem Ísland hafði 108-78 sigur sem er jafnframt stærsti sigur okkar gegn Kýpverjum.

Íslenska liðið minkaði muninn í 50-46 undir lok þriðja leikhluta en Kýpverjar smelltu niður mikilvægum þrist í lokin og leiddu 53-46 fyrir fjórða. Í lokafjórðungnum voru Kýpverjar nokkuð betri á meðan farið var að síga á okkar menn og hlutir eins og að láta „strippa“ sig úti á miðjum velli voru að sjást.

Liðið þarf að vera fljótt að jafna sig því það er strax aftur leikur á morgun kl. 18:00 að íslenskum tíma gegn heimamönnum í San Marinó.

Fyrr í dag tippuðum við á byrjunarlið Íslands, Karfan.is setti fram eftirfarandi lið:

PG – Matthías Orri Sigurðarson
SG – Jón Axel Guðmundsson
SF – Ólafur Ólafsson
PF – Kristófer Acox
C – Tryggvi Snær Hlinason

Rétt lið reyndist vera:

PG – Matthías Orri Sigurðarson
SG – Jón Axel Guðmundsson
SF – Gunnar Ólafsson
F – Ólafur Ólafsson
PF/C – Kristófer Acox

Tölfræði leiksins

Mynd/ Guðmundur Bragason: Íslenska liðið hlýðir á þjóðsönginn í San Marinó í dag.