Úrvalsdeildarlið Stjörnunnar verður að öllum líkindum fyrir mikilli blóðtöku á næsta tímabili þar sem Tómas Heiðar Tómasson mun ekki leika með liðinu. Vegna starfs síns mun Tómas ekki geta tekið þátt í næsta leiktímabili en spennandi verkefni bíða hans erlendis. Þetta staðfesti Tómas við Karfan.is fyrr í dag. 

 

Tómas Heiðar kom til Stjörnunnar fyrir tveimur árum frá Þór Þ en hann er uppalinn hjá Fjölni. Tómas var með 11,4 stig, 3,3 fráköst og 2,9 stoðsendingar í leik fyrir Stjörnuna á tímabilinu. Stjarnan endaði í öðru sæti deildarinnar en féll úr leik í undanúrslitum gegn Grindavík. 

 

„Ég mun að öllum líkindum ekki taka þátt í næsta keppnistímabili. Það eru skemmtileg verkefni í gangi hjá mér í Key Habits þar sem ég starfa. Stefnan er sett á að koma því verkefni af stað erlendis á næsta ári og munu mikið af mínum kröftum fara í það.“ sagði Tómas Heiðar í samtali við Karfan.is. 

 

Tómas Heiðar starfar hjá Key Habits sem er fyrirtækji í eigu Brynjars Karls fyrrverandi landsliðsmaður í körfubolta og fyrrum þjálfara FSu. Fyrirtækið býður fyrirtækjum og einstaklingum uppá hugarþjálfun sem gerir þátttakendur meðal annars færari í persónulegri markmiðastjórnun og eykur tilfinningagreind einstaklingsins. Leikmenn og þjálfarar í efstu deildum á Íslandi hafa nýtt sér þetta og er nú stefnan að herja á erlendan markað. Tómas Heiðar ætlar að taka þátt í því verkefni sem þýðir að Stjarnan missir byrjunarliðsmann úr liðinu. 

 

Stjarnan olli nokkrum vonbrigðum á tímabilinu en félagið staðfesti á dögunum að Hrafn Kristjánsson yrði áfram þjálfari liðsins. Ljóst er að hann þarf að bæta við sig bakverði í leikmannahópinn en auk Tómasar lagði Justin Shouse skónna á hillina strax að tímabilinu loknu.