Stjarnan varð Íslandsmeistari í 10. flokki drengja í dag eftir úrslitaleik gegn Þór Ak sem fram fór á Flúðum. 

 

Leikurinn var jafn í byrjun en snemma í leiknum þurfti að stöðva leikinn er leikmaður Stjörnunnar hlaut hálsmeiðsli. Gert var að þeim og þurfti leikmaðurinn að fara á sjúkrahús til aðhlynningar. Samkvæmt heimildum Karfan.is munu meiðslin ekki hafa verið eins alvarleg og við fyrstu sýn. Eftir meiðslin gekk Stjarnan á lagið fyrir sinn mann og náði 11-0 áhlaupi. 

 

Þá forystu gáfu garðbæingar ekki frá sér í leiknum og komst liðið mest í 25 stiga forystu í þriðja leikhluta. Akureyringar mega þó eiga að þeir gáfust aldrei upp og sýndu hetjulega baráttu þrátt fyrir að verkefnið hafi verið orðið ansi erfitt snemma í leiknum. 

 

Stjarnan vann að lokum nokkuð öruggan sigur 80-69 og eru því handhafar bæði Íslands-og bikarmeistaratitilsins í 10. flokki drengja. 

 

 

Maður leiksins var valinn Dúi Þór Jónsson leikmaður Stjörnunnar en hann var með 24 stig, 3 fráköst og 14 stoðsendingar í leiknum. Þess má til gamans geta að Dúi á einmitt afmæli í dag og því varla hægt að hugsa sér betri afmælisgjöf en Íslandsmeistaratitil og verðlaun sem besti leikmaðurinn.