Lið Bandaríkjanna mun reyna að komast inn á heimsmeistaramótið 2019 án þess að nota NBA leikmenn samkvæmt frétt Marc Stein á ESPN. Þar sem að undankeppnirnar eru nú ekki bara yfir sumartímann (þegar að deildin er í fríi) þá fá þeir leikmenn sem leika í NBA deildinni ekki frí. Hugsað er að liðið muni þá samanstanda af leikmönnum sem leika í D deild NBA deildarinnar, sem og af þeim atvinnumönnum sem leika í Evrópu, Kína og á fleiri stöðum, en þá er það undir hverju liði fyrir sig þar að leyfa leikmönnunum að taka þátt séu þeir samningsbundnir.

 

Enn frekar er áréttað að hópar Bandaríkjanna á lokamótum heimsmeistaramótsins og Ólympíuleikanna muni vissulega innihalda stjörnur NBA deildarinnar, líkt og það hefur verið síðan á Ólympíuleikunum í Barcelona 1992, nema nú verði það mögulega minni spámenn sem þurfi að sjá um það að tryggja farseðil liðsins á þessi mót. Þetta mun ekki einungis hafa áhrif á leikmenn bandaríska liðsins, heldur mun NBA deildin ekki hleypa neinum leikmanni til að spila fyrir þjóð sína á meðan að tímabilið stendur yfir, en undankeppni heimsmeistarakeppninnar 2019 hefst seinna á þessu ári. 

 

Þetta mun að einhverju leyti hafa áhrif á þátttöku nýráðins þjálfara bandaríska liðsins, þjálfar San Antonio Spurs, Greg Popovich, en gert er ráð fyrir að aðstoðarmenn hans sjái þá um þjálfun í þessum leikjum. Fróðlegt verður að sjá hvernig framkvæmdin verður á þessu hjá þjóðunum, en leikar munu hefjast í nóvember á þessu ári.