Íslenska landsliðið fór ansi auðveldlega í gegnum leik liðsins gegn San Marínó sem lauk rétt í þessu. Leikurinn var annar leikur Íslands á Smáþjóðaleikunum. Ísland og San Marínó hafa mæst 11 sinnum áður og hefur Ísland alltaf unnið og yfirleitt frekar örugglega. 

 

Þrátt fyrir að jafnt hafi verið á tölum í fyrsta leikhluta gaf Ísland í eftir það og horfði aldrei til baka. Staðan í hálfleik var 24-41 Íslandi í vil og ljóst að San Marínó átti lítið í íslenska liðið. 

 

Ísland gaf í sóknarlega í seinni hálfleik og vann að lokum 95-53 öruggan sigur. Tryggvi Snær Hlinason heldur áfram að eiga frábærar frammistöður á Smáþjóðaleikunum en hann var stigahæstur með 15 stig í dag, hann var einnig með tvöfalda tvennu þar sem hann bætti 10 fráköstum við. Stigaskor Íslands dreifðst mjög en Kristófer Acox var næststigahæstur með 13 stig. 

 

Íslenska liðið er þar með komið með einn sigur og eitt tap eftir tvo leiki en liðið mætir Andorra á morgun kl 13:00 að Íslenskum tíma. Andorra steinlág fyrir Svartfjallalandi í dag en vann San Marínó í gær með 15 stigum. 

 

Tölfræði leiksins