Utah Jazz komst áfram í undanúrslit Vesturdeildarinnar í NBA í gærkvöldi eftir sigur á Los Angeles í oddaleik liðanna í átta liða úrslitum Vestursins. Utah endaði neðar en Clippers í deildinni og því hefðu einhver lið kannski verið ánægð að mæta Utah í næstu umferð en það er Golden State Warriors sem eru næstu andstæðingar Jazz. 

 

Einn leikmaður Warriors er hinsvegar ekkert sérlega sáttur við að mæta Utah Jazz og hefur tvær ástæður fyrir því. Matt Barnes sem leikur með Golden State er nefnilega ekki ánægður þar sem næturlífið í Utah er ekkert sérstakt:

 

„Sem leikmaður þá viltu eiga möguleika á því að kíkja smá á lífið á milli leikja, en aðal atriðið er auðvitað að vinna leiki. Fyrir mig persónulega þá vildi ég mæta Clippers og vinna þá. Það er fyrrum lið mitt og börnin mín búa þar. En þegar kemur að næturlífinu þá er ekki hægt að bera saman Utah og Los Angeles.“ sagði Matt Barnes í viðtali við ESPN. 

 

Fyrsti leikur liðanna fer fram á þriðjudaginn í Oakland en ljóst er að þrátt fyrir svekkelsi Golden State manna þá er róðurinn ansi þungur fyrir Utah Jazz. Golden State Warriors sópaði Portland úr leik í fyrstu umferð og hafa verið gríðarlega sterkir í vetur.