Manuel Rodriquez mun ekki þjálfa meistaraflokk kvenna hjá Skallagrím á næsta tímabili. Þetta staðfestir hann á facebook síðu sinni í dag. 

 

Hann segir að Skallagrímur hafi tilkynnt sér að þeir hafi ákveðið að leita annað og ekki yrði endurnýjað við hann samning. Manuel tók við liðinu fyrir tveimur árum er félagið var í 1. deild kvenna. Hann hefur á tveimur tímabilum stýrt liðinu til sigurs í 1. deild, í bikarúrslit og undanúrslit á Íslandsmóti. 

 

Í samtali við Karfan.is segir Manuel að hanni hafi fengið skilaboð frá stjórn Skallagríms um að þeirra niðurstaða væri sú að félagið þyrfti nýtt blóð við stjórnartaumana. Hann væri þakklátur fyrir verk sín og tíma hjá félaginu. 

 

Á facebook síðu sinni sendir hann stuðningsmönnum Skallagríms kveðju sem segir hafa gert gríðarlega mikið fyrir liðið. Einnig þakkar hann leikmönnum fyrir vinnuframlagið og stundirnar. Hann segist ekki vera sár yfir ákvörðun Skallagríms hefur þakklátur fyrir tækifærið að þjálfa og búa á Íslandi. 

 

Manuel A. Rodríguez hefur áður stýrt liði Solna Vikings í sænsku úrvalsdeildinni. Hann hefur mikla reynslu af þjálfun kvennaliða og hefur m.a. verið aðstoðarþjálfari í efstu deild á Spáni, stýrt liði í Euroleague, verið hluti af þjálfarateymi yngri landsliða kvenna á Spáni auk þess að þjálfa háskólalið þar í landi með mjög góðum árangri. Hann ætti því ekki að vera í vandræðum með að finna sér verkefni í evrópu. 

 

Skallagrímur hefur enn ekki tilkynnt hver tekur við af Manuel. Liðið endaði í þriðja sæti deildarinnar á nýliðnu tímabili og það sem nýliðar. 

 

Mynd / Bára Dröfn – Manuel stýrði Skallagrím í Laugardalshöllinni gegn Keflavík í úrslitum Maltbikarsins