Seinni helgi úrslita yngri flokka fer fram um helgina á Flúðum og hófst í gær. Þar fór fram undanúrslit í unglingaflokki karla þar sem KR og Haukar tryggðu sæti í úrslitaleiknum. 

 

Fyrri leikur kvöldsins var á milli Hauka og Breiðabliks þar sem segja má að leikurinn hafi verið nokkur einstefna. Eftir jafnar upphafsmínútur náðu Haukar strax 13-4 foyrstu eftir sjö mínútur og til að gera langa sögu stutta gáfu þeir þá forystu aldrei af hendi. 

 

Haukar bættu einfaldlega í forystuna í seinni hálfleik og komust mest í 28 stiga forystu. Blikar gáfust þó aldrei upp og endaði leikurinn 80-60 og því ljóst að það eru Haukar sem leika til úrslita. Breki Gylfason var gríðarlega sterkur á móti uppeldisfélagi sínu og endaði með 13 stig og 11 fráköst. Snorri Vignisson var stigahæstur hjá Breiðablik með 13 stig og 11 fráköst. 

 

Tölfræði leiksins

 

Í seinni undanúrslitaleik kvöldsins mætti KR Grindavík. Sömu lið og mættust í úrslitaeinvígi Dominos deildarinnar og sama spenna var uppá teningnum í þessum leik. Liðin voru hnífjöfn nánast allan leikinn og munurinn fór mest í níu stig. 

 

Grindavík virtist vera að síga frammúr í fjórða leikhluta þegar augnarblikið féll með þeim. Sjö stiga forysta þeirra varð að engu er KR setti saman 15-3 áhlaup og eftir það var ekki aftur snúið. KR vann að lokum 84-77 sigur á Grindavík og er því komið í úrslitaleikinn.  Þórir Guðmundur Þorbjarnarson var atkvæðamestur hjá KR með 35 stig og 7 fráköst. Hjá Grindavík var Ingvi Þór Guðmundsson með tröllatvennu eða 32 stig og 21 frákast. 

 

Tölfræði leiksins

 

Það eru því KR og Haukar sem mætast í úrslitaleiknum sem fram fer á Flúðum á morgun, sunnudag. Liðin enduðu efst í deildinni og hafa mæst tvisvar á tímabilinu í deild og unnið sitthvoran leikinn. KR sló þá Hauka úr leik í undanúrslitum bikarkeppninnar sem liðið vann svo. Þessi sömu lið mættust einmitt í úrslitum unglingaflokks síðustu helgi þar sem Haukar unnu góðan sigur í frábærum leik. 

 

Úrslitaleikurinn fer fram kl 16:00 og verður í beinni útsendingu á Youtube-rás KKÍ. 

 

Mynd / Ólafur Þór Jónsson – KR og Haukar mættust einnig í úrslitaleik Drengjaflokks um síðustu helgi.