Valsmenn léku gegn Fjölnismönnum í undanúrslitum 9. flokks drengja í úrslitakeppni yngri flokka sem fram fer í Dalhúsum þessa helgina. Valsmenn sem fóru í úrslitaleik bikarsins voru með yfirhöndina í fyrri hálfleik og allt leit út fyrir spennandi leik. 

 

Fjölnismenn voru ekki á sama máli og settu heldur betur í gírinn í seinni hálfleik. Gulir náðu muninum fljótlega uppí 10 stig og héldu muninum til enda. Sigur Fjölnis var að lokum 73-60 gegn Val. Fannar Eli Hafþórsson var framlagshæstur hjá Fjölni með 20 stig, 10 stig, 3 stoðsendingar og 3 stolnir boltar. 

 

Tölfræði leiksins.

 

Seinni undanúrslitaleikurinn var á milli Stjörnunnar og KR. Mikil spenna var í þessum leik en KR voru sterkari aðilinn framan af leik. Í lok þriðja leikhluta virtist Stjarnan vera að síga framúr og ná að tryggja sér sigur. 

 

Þegar hálf mínúta var eftir jafnaði KR úr víti 46-46 og fengu bæði lið tækifæri til að taka sigurinn en ekkert gekk. Því var framlengt í leiknum og þar hafði KR betur og vann 55-51 sigur. Sveinn Búi Birgisson var sterkur fyrir KR með 17 stig og 13 fráköst. 

 

Tölfræði leiksins.

 

Það eru því Fjölnir og KR sem mætast í úrslitum 9. flokks drengja þetta árið en leikurinn fer fram kl 10:00 í fyrramálið. Leikurinn er í beinni útsendingu á Youtube rás KKÍ. 

 

 

Mynd / Facebook síða Fjölnis.