Haukar og ÍR áttust við undanúrslitum Drengjaflokks í Dalhúsum í kvöld og fór svo að Haukar fóru með sigur af hólmi eftir æsispennandi lokamínútur. Það verða því Haukar og KR sem etja kappi um Íslandsmeistaratitilinn á sunnudaginn en leikurinn fer fram í Dalhúsum og hefst kl. 14:00.

Haukar náðu forystu snemma leiks og leiddu mest með 16 stigum um miðjan annan leikhluta. Breiðhyltingar söxuðu á forskotið áður en flautað var til leikhlés og skyldu 6 stig liðin að þegar þau gengu til klefa í hálfleik. ÍR-ingar mættu vel stemmdir til leiks í seinni hálfleik og jöfnuðu leikinn um miðjan þriðja leikhluta í stöðunni 51-51. Þegar um þrjár mínútur voru liðnar af lokafjórðungnum leiddi ÍR með 9 stigum, 73-64 og Haukar höfðu misst Hilmar Smára Henningsson útaf með 5 villur en hann var stigahæstur Hafnfirðinga í kvöld. Haukar voru þó sterkari á lokasprettinum og lönduðu 6 stiga sigri, 75-81.

Atkvæðamestur í liði Hauka var Hilmar Smári Henningsson með 28 stig, 5 fráköst og 4 stoðsendingar. Hilmar Pétursson skoraði 18 stig, tók 12 fráköst og gaf 5 stoðsendingar, Axel Rafn Guðlaugsson setti 14 stig og tók 12 fráköst og Ísak Sigurðarson skoraði 11 stig og tók 14 fráköst.

Stigahæstur hjá ÍR var Skúli Kristjánsson með 21 stig, Hákon Örn Hjálmarsson skoraði 20 stig, tók 8 fráköst og gaf 7 stoðsendingar, Haraldur Bjarni Davíðsson skoraði 15 stig, tók 6 fráköst, gaf 6 stoðsendingar og stal 5 boltum og Þorgeir Þorsteinsson skoraði 12 stig og tók 7 fráköst.

Tölfræði leiks 

Myndasafn úr leik