Golden State Warriors tryggðu sér farseðil í úrslitaviðureignina í NBA deildinni í nótt með öruggum 129-115 sigri á San Antonio Spurs. Sigurinn var í raun aldrei í hættu en Warriors náðu forystu snemma í leiknum sem þeir létu aldrei af hendi.

 

Stephen Curry leiddi Warriors með 36 stig en Kevin Durant bætti við 29 í afar skilvirkum leik með 10/13 í skotum auk þess að taka niður 12 fráköst. Hjá Spurs var það Kyle Anderson sem leiddi liðið með 20 stig af bekknum.

 

Golden State liðið tapaði því ekki einum leik í úrslitakeppninni í vestrinum á leið sinni í úrslitin. Í austrinum hins vegar eru Cleveland Cavaliers með 2-1 forystu gegn Boston Celtics.