Viðar Ágústsson hefur endurnýjað samning sinn við Tindastól en óvíst var hvort hann léki áfram með liðinu á næsta tímabili. Þetta segir Feykir.is í dag. Viðar sem er að mörgum talinn einn besti varnarmaður landsins átti gott tímabil með Stólunum en hann var með 7,4 stig að meðaltali í leik í 15 leikjum en hann átti við nokkur meiðsli að stríða. 

 

Viðar er uppalinn hjá Tindastól og hefur leikið með meistaraflokk félagsins í fjögur ár þrátt fyrir að vera einungis 21 árs. Samkvæmt Feyki.is sagði Viðar það hafa verið spurning um hvort hann væri á leið í skóla í bæinn í hausinn en hann hafi ákveðið að láta ekki verða að því í þetta sinn. 

 

Tindastóll hefur heldur betur styrkt hóp sinn fyrir næsta tímabil en landsliðsmaðurinn Axel Kárason og Sigtryggur Arnar Björnsson frá Skallagrím eru komnir til liðs við liðið. Auk Viðars hefur svo Pétur Rúnar Birgisson endurnýjað samning sinn og því allt útlit fyrir að liðið verði ógnarsterkt á næsta tímabili.