Einn leikur fór fram í úrslitakeppni NBA deildarinnar í nótt þegar Boston Celtics tók 3-2 forystu í undanúrslitum austurstrandarinnar gegn Washington Wizards. Boston vann leikinn 123-101.

Avery Bradley fann sig vel hjá Boston í nótt með 29 stig, 6 fráköst og 3 stoðsendingar og þá bætti Al Horford við 19 stigum, 6 fráköstum og 7 stoðsendingum. Hjá Wizards var John Wall atkvæðamestur með 21 stig, 4 fráköst og 4 stoðsendingar.

Sigurvegarinn í einvíginu mætir Cleveland Cavaliers í úrslitum austurstrandar en Cleveland sópaði Toronto 4-0 í hinni undanúrslitarimmunni.

Þá hefur leikstjórnandinn öflugi Isaiah Thomas verið sektaður um 25.000 dollara (c.a. 2,7 milljónir króna) fyrir að hafa átt í óviðeigandi orðaskaki við áhorfanda á leik þrjú hjá Boston og Washington. Boston tapaði þeim leik 121-102 í Verizon Center.

Mynd/ Avery Bradley leikmaður Boston setti 29 stig á Wizards í nótt.