Valsmenn sendu frá sér fréttatilkynningu fyrr í dag þar sem tilkynnt er að liðið hafi fengið einn efnilegasta leikmann landsins til liðs við sig frá KR. Ásta Júlía Grímsdóttir hefur ákveðið að leika með liðinu á næsta tímabili í Dominos deild kvenna. 

 

Ásta Júlía kemur frá KR en hún er 16 ára, fædd árið 2001. Hún spilaði frábærlega á síðasta tímabili fyrir KR og var með 9,9 stig, 8,6 fráköst og 2,1 varið skot í leik. Það tryggði henni að vera valin besti ungi leikmaður 1. deildar kvenna á lokahófi KKÍ sem fram fór á dögunum. 

 

Yfirlýsingu Vals má finna í heild sinni hér að neðan:

 

Ein efnilegasta körfuknattleikskona landsins komin í raðir Valsmanna

 

Ásta Júlía Grímsdóttir skrifaði í dag undir samning við körfuknattleiksdeild Vals um að leika með félaginu næstu tvö keppnistímabil. Ásta Júlía, sem er fædd 2001, var valin besti ungi leikmaður 1. deildar á lokahófi KKÍ á dögunum. Hún hefur leikið með KR frá því að hún hóf að æfa körfubolta, var valin í U15 í fyrra og U16 landsiðið núna í sumar. Ásta Júlía spilaði að meðaltali 23 mínútur með KR í fyrstu deildinni í vetur og skoraði 9,9 stig, tók 8,6 fráköst og var með 2,1 varið skot í leik.

 

Darra Frey, þjálfara Vals, lýst vel á að fá Ástu Júlíu í hópinn. „Ásta Júlía er með efnilegustu leikmönnum landsins og við erum mjög spennt fyrir hennar  framtíð á Hlíðarenda. Hún hefur alla burði til þess að ná eins langt og hún vill og við munum hjálpa henni af fremsta megni á leiðinni“.

 

Ásta Júlía segist spennt að spreyta sig í Dominio‘s-deilinni næsta vetur: „Ég er mjög spennt að spreyta mig í úrvalsdeildinni. Mér líst vel á hópinn og félagið. Darri var fyrsti þjálfarinn minn þegar ég kom upp í meistaraflokk þannig að það verður frábært að leika undir hans stjórn aftur.“

 

Valsmenn fagna komu einnar efnilegustu körfuboltakonu landsins að Hlíðarenda og hlakka til að fylgjast með henni og öflugum liðsfélögum næsta vetur.

 

KKD Vals.