Vísir greinir frá því að þjálfarinn Benedikt Guðmundsson sé á leiðinni heim í vesturbæinn til þess að þjálfa meistaraflokk kvenna og yngri flokka á næsta tímabili. Benedikt þjálfaði síðast hjá KR árið 2010, en þá gerði hann meistaraflokk kvenna að Íslandsmeisturum, en það sama gerði hann einnig karlamegin hjá félaginu árin 2007 og 2009. 

 

Síðan árið 2010 hefur Benedikt verið á eilitlu ferðalagi. Árin 2010-2015 þjálfaði hann í Þorlákshöfn áður en hann færði sig til Akureyrar þar sem hann hefur þjálfað síðastliðin tvö tímabil. Á síðasta tímabili kom hnn Þór einmitt inn í úrslitakeppnina, þar sem að KR slógu þá út í 8 liða úrslitunum.

 

 

Fréttatilkynning KR:

Körfuknattleiksdeild KR hefur staðið í ströngu undanfarið og mikil gleði ríkjandi innan félagsins enda hafa markmið náðst og starfið í blóma í öllum flokkum félagsins.

Það er með mikilli ánægju að segja frá því að Benedikt Guðmundsson er kominn heim aftur í KR.

Benedikt, eða Benni Gumm, þjálfaði yngri flokka KR lengi vel og þar fóru í gegnum hans flokka margir núverandi leikmenn liðsins eins og t.d  Jón Arnór Stefánsson, Brynjar Björnsson, Darri Hilmarsson og Þórir Þorbjarnarson. 

Benedikt tók svo við meistaraflokk karla og stýrði þeim til sigurs 2007 og 2009. 2010 þjálfaði Benedikt meistaraflokk kvenna og undir hans stjórn vannst Íslandsmeistaratitill í eftirminnilegu einvígi gegn Hamri.

Benedikt hefur sýnt og sannað hæfileika sína og það er mikill happafengur að fá hann aftur í sitt heimafélag KR. Hann hefur búið til marga afreksleikmenn sem hafa farið í atvinnumennsku og spilað með A-landsliði Íslands. 

Þekking hans á körfubolta er þekkt og sönnuð. Benedikt mun sinna þjálfun yngri flokka KR ásamt meistaraflokki kvenna og ljóst að stefna körfuknattleiksdeildar að byggja á uppöldum leikmönnum í karla og kvennastarfinu heldur áfram með tilkomu hans.

Velkominn heim og ÁFRAM KR!!