Stjórn danska úrvalsdeildarfélagsins Svendborg Rabbits hefur ákveðið að framlengja ekki samningi sínum við þjálfara liðsins Arnar Guðjónsson og Bernat Elias. Arnar Guðjónsson sem einnig er aðstoðarþjálfari A-landsliðsins tók við aðalþjálfun Svendborg á síðasta tímabili af Craig Pedersen landsliðsþjálfara Íslands en Arnar var einmitt aðstoðarþjálfari liðsins fyrir. 

 

Á heimasíðu Svendborg segir að liðið ætli sér stærri hluti á komandi tímum og ákveðið hafi verið að leita af nýjum þjálfara sem ekki starfar með landsliði samhliða. Það sé gert til að hafa þjálfara á staðnum í undirbúningstímabilinu en framundan eru stór verkefni hjá Íslenska landsliðinu næstu tvö haust, þ.e. Eurobasket 2017 og undankeppni Heimsmeistaramótsins 2018. 

 

Svendborg Rabbits unnu til bronsverðlauna á nýliðnu tímabili í dönsku úrvalsdeildinni en það eru fyrstu verðlaun félagsins frá 2013. Arnar hefur þjálfað í Danmörku í nokkur ár og ljóst að hann mun nú leita sér af nýju starfi. Svendborg þakkar honum vel fyrir unnin störf í gegnum tíðina á heimasíðu sinni. 

 

Mynd / Heimasíða Svendborg