Hrein úrslitaleikur um sæti í Dominos deild karla fer fram í kvöld kl 18:00 er Valsmenn taka á móti Hamri í Valshöllinni. Liðin hafa leikið fjórum sinnum í einvíginu og unnið sitthvora tvo leikina. 

 

Við fengum Yngva Pál Gunnlaugsson þjálfara Vestra á Ísafirði til að kíkja í spádómskúluna sína og segja okkur við hverju væri að búast í þessum oddaleik liðanna. Hann spáir Val sigri í að virðist háspennuleik: 

 

,,Ég spái 83-81 fyrir Val. Það verður erfitt fyrir Hamar að taka annan leik á Hlíðarenda, en ekkert er ómögulegt." sagði Yngvi og bætti við um leik kvöldsins.
 
 
"Úrslitakeppnin hefur svo sannarlega staðið undir væntingum og bæði lið eiga hrós skilið fyrir frábæra skemmtun og flott tilþrif. Bæði lið eru vel þjálfuð en Hamarsliðið hefur verið einstaklega beitt síðan að Pétur tók við. Valsliðið er einkar vel rútíneðar en mér finnst þeir alltaf eiga meira inni en þeir hafa sýnt, fyrir utan bikarkeppnina. Ég býst við jöfnum leik þar sem King og Woods verða áfram í aðalhlutverkum en gaman verður að fylgjast með hvaða íslensku leikmenn stíga fram fyrir skjöldu, það kann að ríða baggamuninn líkt og Oddur Birnir gerði í síðasta leik."
 
Yngvi hefur þjálfað Vestra í allan vetur og mætt báðum liðum þrisvar á tímabilinu. Kemur það honum á óvart að þessi lið séu í þessari stöðu?
 
"Erlendur og Hilmar hafa verið betri en engin og raunar gerbreytt Hamarsliðinu til hins betra. Örn og Woods eru með betri mönnum deildarinnar auk þess sem Pétur þjálfari er einstaklega fær að ná miklu úr litlu. Ekki má gleyma mönnum eins og Oddi, Snorra og Rúnari sem myndu gera öll lið betri. Þannig að heilt yfir kemur ekki á óvart að liðið sé í þeirri stöðu sem raun ber vitni á þessum tímapunkti." sagði Yngvi og sagði svo um Valsliðið:
 
"Valsliðið hefur verið algjört jó-jó. Það er eina liðið sem vann Hött, og það þrívegis! Segja má um Valsliðið að þeir eru oft sjálfum sér vestir en á góðum degi er hrein unun að fylgjast með þeim. Fyrir tímabilið hefði ég hugsanlega spáð Val úrvalsdeildarsæti og því stend ég við það. Ég tel að það yrði mun meira áfall fyrir Valsmenn að falla um þröskuldinn en Hamar en að því sögðu óska ég báðum liðum góðs gengis og megi betra liðið vinna."
 
Leikur kvöldsins hefst klukkan 18:00 og er í beinni útsendingu á Rúv2. Hvort Yngvi hefur rétt fyrir sér kemur í ljós en ef litið er til fyrri leikja liðanna er ljóst að framundan er stórskemmtilegur leikur og allar líkur á háspennu lífshættu.