Leikmaður Þórs Akureyri, framherjinn  Þröstur Leó Jóhannsson, hefur gert tveggja ára samning við uppeldisfélag sitt Keflavík. Þröstur hóf meistaraflokksferil sinn árið 2005 í Keflavík þar sem að hann vann Íslandsmeistaratitilinn á sínu fyrsta ári. Síðan þá hefur hann leikið með tveimur öðrum liðum. Tindastól tímabilið 2012/2013 og svo síðast Þór frá árinu 2016. Mikill fengur er þetta fyrir lið Keflvíkur, sem að greinilega er farið af stað í að safna liði fyrir næsta tímabil.

 

Karfan hafði samband við Þröst og spurði hann út í vistaskiptin. Sagðist hann eiga erfitt með að gefa nákvæm svör afhverju hann hafi ákveðið að skipta nú. Sagði hann þó að Keflavík væri heima fyrir honum og líklegast lægi ástæðan bæði í því sem og fólkinu í kringum félagið og þeim hugmyndum sem uppi eru um framtíðina. Varðandi horfur liðsins fyrir næsta tímabil hafði hann svo þetta að segja "Á eftir að hitta mannskapinn og taka æfingu með gömlum og nýjum félögum. Ólst hinsvegar upp við að vinna og hef ekki skynjað að það hugarfar sé horfið þrátt fyrir 9 ár frá síðasta Íslandsmeistaratitli"