Snæfell sótti Stjörnukonur heim í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Domino’s deildar kvenna í dag. Hólmarar unnu mjög þægilegan sigur í fyrsta leik liðanna í Stykkishólmi og gátu því sett Garðbæinga í mjög erfiða stöðu með sigri í Ásgarði. Skemmst er frá því að segja að Snæfell vann öruggan sigur, 70-86, í leik sem þær höfðu undirtökin í frá upphafi og geta Hólmarar því tryggt sér farseðilinn í úrslit með sigri í þriðja leik liðanna sem fram fer í Stykkishólmi 5. apríl næstkomandi.

 

Lykillinn

Munurinn milli liðanna í dag var sá að gestirnir virtust einfaldlega tilbúnari í úrslitakeppniskörfubolta. Hjá heimakonum dró Danielle Rodriguez vagninn sem fyrr, en aðrir leikmenn virtust hálfvankaðir og alls ekki með hausinn rétt skrúfaðan á. Til dæmis fengu Stjörnukonur dæmdar á sig þrjár óíþróttamannslegar villur sem voru allar hver annarri undarlegri. Snæfellskonur fengu hins vegar framlag frá fleiri en erlendum leikmanni sínum, Aaryn Ellenber, sem var þó stigahæst með 31 stig. Bryndís Guðmundsdóttir skoraði t.d. 21 stig og vó hennar framlag þar þungt. Í hvert skipti sem Stjörnukonur gerðu sig líklegar til að koma sér aftur inn í leikinn náðu gestirnir líka  oftar en ekki að sökkva þeim vonum jafnóðum með þristum.

 

Hetjan

Aaryn Ellenberg var flott í dag með 31 stig og 11 fráköst.

 

Tölfræðin

Dani Rodriguez var grátlega nálægt þrefaldri tvennu með 33 stig, 9 fráköst og 9 stoðsendingar. Rodriguez var langbest í liði Stjörnunnar og getur borið höfuðið hátt eftir leikinn.

 

Framhaldið

Eins og áður sagði geta Hólmarar klárað einvígið næsta miðvikudagskvöld þegar liðin mætast þriðja sinni í Stykkishólmi. Stjörnukonur eru hins vegar komnar með bakið þéttingsfast upp við vegg og þurfa að gera talsvert betur en í síðustu tveimur leikjum ef sópurinn á ekki að fara á loft í Hólminum.

 

Tölfræði leiksins

Myndasafn / Þorsteinn Eyþórsson

 

Viðtöl:

Gunnhildur: Það kemur enginn í Hólminn og vinnur

Pétur Már: Þarf alltaf aðeins meira en að vera góður í körfubolta

Ingi Þór: Þurfum að sýna drápseðli í næsta leik

 

Umfjöllun / Elías Karl Guðmundsson