Snæfellsstúlkurnar höfðu fyrir leikinn 2-0 yfirhöndí einvíginu og gátu auðvitað siglt þessu heim en búist var við Stjörnunni kolvitlausum og alls ekki tilbúnar að fara í fríið. Það sem átti eftir að koma í ljós var að Snæfell rúllaði svipað í leiknum líkt og fyrri tvo. Komu sér í ágæta stöðu strax í upphafi og náðu að halda vel út og höfðu sannfærandi sigur 84-70 og þar með sópuðu skemmtilegu liði Stjörnunnar út 3-0 sem gáfu mikið í þessa leiki. Snæfellsstúlkur þurfa nú að hvíla í 12 daga eða til 17. Apríl þegar úrslitaeinvígið hefst en Keflavík og Skallagrímur eigast enn við.

 

 

Bryndís Guðmundsdóttir kom með tvo stórgóða þrista strax í upphafi og Bríet Sif svaraði og staðan 8-5. Stjarnan hlóð í ágætis vörn um tíma og virtust líklegar en sóknir þeirra runnu út í sandin og gerðu sér ekki mat úr því. Snarlega breyttist svo staðan úr 12-9 í 18-9 fyrir Snæfell eftir þrista frá Berglindi og Söru Diljá en sóknir þeirra voru ekkert sérstaklega sannfærandi framan af. Staðan eftir fyrsta hlut orðin 10 stig 23-13 ekki ólíkt fyrri leikjum.

 

Snæfellsstúlkur voru að auka forskotið þrátt fyrir góðan vilja Stjörnunnar að berjast við að stoppa þær, engu að síður komst Snæfell í 21 stiga forskot 42-21. Stjarnan tók sér tak og sóttu vel á undir lok annars leikhluta með Danielle Rodriguez eldheita og staðan í fyrri hálfleik 44-34. Bryndís og Aaryn komnar með 11 stig hvor fyrir Snæfell og í liði Stjörnunnar Danielle 13 stig og Bríet Sif 12 stig.

 

Snæfell var að taka fleiri stig úr unnum boltum og bekkurinn kom með meira framlag og það vóg þungt. Með sterku áhlaupi í þriðja hluta náðu Snæfell 19 stiga forskoti 60-41 og virtust ekki kippa sér upp við þegar Stjarnan tók áhlaup og áttu alltaf svör staðan fyrir lokaátökin í fjórða fjórðung 69-53.

 

Snæfell áttu erfitt með sóknarleikinn sinn gegn vörn Stjörnunnar og settu ekki stig fyrstu þrjár mínútur fjórða hluta á meðan gestirnir nálguðust 69-59 og Gunnhildur Gunnarsdóttir fór af velli með fimm villur. Aaryn Ellenberg hélt sóknarleik Snæfells í fjórða á floti en varnarlega voru þær að gera ágæta hluti en Stjarnan var að vinna frákastabaráttuna engu að síður. Snæfell sigldi sigrinum nokkuð sannfærandi í höfn eftir mikið puð og pústra liðanna í leiknum en þetta var sennilega harðasti leikurinn líkamlega.

 

Þáttaskil leiksins voru strax í upphafi þegar Snæfell skóp sér 10 stiga mun og lét hann ekki af hendi allan leikinn, sóttu góð áhlaup í hverjum leikhluta sem gaf þeim allt uppí 21 stiga forystu og orka Stjörnunnar var að elta það uppi og gera áhlaup á móti en Snæfell áttu alltaf svör og spiluðu yfivegað þrátt fyrir stífa gæslu.

 

Hetjan var Aaryn Ellenberg sem er bara ekki hægt að stoppa og varla hægja á. Hún stjórnaði leiknum af festu og steig upp í mesta barningnum, tók góð fráköst og spilaði einnig vel upp samherja sína. Aaryn endaði með 25 stig, 14 fráköst og 6 stoðsendingar. Berglind Gunnars var í mikilli baráttu og puði í leiknum og setti niður 17 stig og Bryndís Guðmunds smellti niður 15 stigum.

 

Ef við skoðum tölur þá þrátt fyrir að Stjarnan ynni frákastabaráttuna 32/42 þá voru skoruð stig frá töpuðum boltum mótherja 39 gegn 24 Stjörnunnar og einnig 16 stig Snæfells af bekknum gegn 4 Stjörnunnar að tala sínu máli um breidd og áhlaup liðanna. Í liði Stjörnunnar setti Bríet Sif niður 4 góða þrista og endaði með 23 stig og Danielle Rodriguez 21 stig og tók 9 fráköst.

 

Tölfræði leiksins 

Myndasafn (Sumarliði Ásgeirsson)

 

Viðtöl eftir leik: 

 

Umfjöllun og viðtöl / Símon B Hjaltalín.